Fara í efni

Umhverfisverðlaun 2021 veitt í dag í Súðavík

Fólkið á bak við Raggagarð hjónin Vilborg (Bogga) og Halldór (Dóri)
Fólkið á bak við Raggagarð hjónin Vilborg (Bogga) og Halldór (Dóri)

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru formlega afhent í Súðavík í dag. Verðlaunin hlaut Vilborg Arnarsdóttir fyrir uppbyggingu Raggagarðs í Súðavík. Raggagarður hefur tvívegis hlotið styrki frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Garðurinn hlaut styrk árið 2019 m.a. fyrir bætt öryggi, bílastæði og upplýsingaskilti . Síðari styrkurinn var hluti af sérstakri aukaúthlutun ráðherra árið 2021 þar sem lögð var áhersla á bætt aðgengi á ferðamannastöðum fyrir gesti með skerta hreyfigetu. Bæði framkvæmdaverkefnin voru kláruð með miklum sóma og ríma vel við áherslur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er varða öryggi, bætt aðgengi og samfélagslega ábyrgð.

 Frá afhendingu verðlaunanna. Vilborg Arnarsdóttir og Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri 

Markmiðið með garðinum er að hlúa að fjölskyldum, efla útiveru og hreyfingu og stuðla um leið að ánægjulegri samveru foreldra og barna, einnig að styrkja uppbyggingu Súðavíkur sem ferðamannabæjar og efla afþreyingu fyrir ferðamenn á Vestfjörðum.

  
Frá Raggagarði í Súðavík

Verðlaunagripurinn ber heitið ,,Sjónarhóll“ og eru höfundar hans Jón Helgi Hólmgeirsson og Védís Pálsdóttir. Í ár fylgir verðlaununum í fyrsta sinn auka skjöldur sem koma má fyrir á áfangastaðnum sjálfum.

Sjá nánar um Raggagarð & Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu