Fara í efni

Um 150 milljarða glataður virðisauki í ferðaþjónustu árið 2020 vegna COVID-19

Frá Snæfellsnesi. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Frá Snæfellsnesi. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Virðisauki á hvern ferðamann dregist saman allt frá 2010 og ferðaþjónustan illa í stakk búin til að takast á við niðursveiflu

 

Síðastliðið haust samdi Ferðamálastofa við Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) um að rannsaka áhrifaþætti aðlögunarhæfni og seiglu í ferðaþjónustu. Reynslan sýnir að ferðaþjónusta getur verið sveiflukenndur atvinnuvegur. Það er ekki aðeins að grunneftirspurnin geti verið breytileg heldur geta náttúruhamfarir eins og eldgos, innlendar efnahagsaðstæður eins og gengi krónunnar, kjarasamningar og verkföll og heimsfaraldrar eins og Covid-19 valdið verulegum sveiflum í bæði umsvifum í greininni og afkomu. Það er því rík ástæða til að hugleiða hvernig ferðaþjónustan getur mætt þessum breytileika og staðið erfið tímabil af sér. Er það megintilgangur með rannsókninni.

Verkefnið er hluti af rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2021-2023 en tilgangur hennar er fyrst og síðast að efla þekkingu á ferðaþjónustu sem lykilatvinnugrein og samspili hennar við aðrar megingreinar í íslensku efnahagslífi. Slík þekking og samsvarandi greiningartæki eru mikilvægur grundvöllur stefnumótunar og ákvarðanatöku stjórnvalda, fyrirtækja í greininni og fjármögnunaraðila þeirra. 

RMF hefur nú skilað Ferðamálastofu áfangaskýrslu í verkefninu, sem sjá með því að smella á hlekkinn hér að neðan. Um er að ræða ítarlega samantekt og greiningu á þeim gögnum sem til eru og nýta má sem tölulegan grundvöll meginályktana rannsóknarinnar. Rannsókn RMF stendur út þetta ár. Henni lýkur með ítarlegri skýrslu um rannsóknarefnið og kynningu rannsóknaraðila á mikilvægustu niðurstöðum á vegum Ferðamálastofu, sem kynnt verður betur síðar.

Í skýrslu RMF kemur m.a. fram að: 

  • Ætla má að tapaður virðisauki í ferðaþjónustu vegna COVID-19 á árinu 2020 hafi verið um 149 milljarðar króna, m.v. að fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi hefði annars verið um 2 milljónir eins og spáð var. 

  • Tímabilið 2010-2016 var vöxtur í virðisauka ferðaþjónustunnar en á honum hægðist eftir 2016. Virðisauki og hagnaður á hvern ferðamann hafa dregist saman á ári hverju allt frá 2010 og til 2017 og 2018.  Ljóst er því að ferðaþjónustan var rekstrarlega í erfiðri stöðu og illa í stakk búin að takast á við niðursveiflu í hagkerfinu, hvað þá þann mikla samdrátt í eftirspurn sem varð í kjölfar COVID-19. 

  • Ferðaþjónustufyrirtæki fengu úthlutað 65% af þeim stuðningi sem ætlaður var rekstraraðilum (utan sjálfkrafa frestunar á skattgreiðslum) á árinu 2020. Rúm 44% af hlutabótum ársins 2020 fóru til einstaklinga í ferðaþjónustu. Hæst var hlutfallið hjá þeim sem störfuðu við veitingaþjónustu eða 14,4% og síðan til þeirra sem unnu á gististöðum eða 12,7%. Mestu fjármagni í tengslum við mótvægisaðgerðir til rekstraraðila ferðaþjónustunnar árið 2020 var úthlutað til fyrirtækja í gistirekstri eða 19,2%. 

  • Samdráttur í tekjum veitingahúsa var ekki eins mikill og í öðrum greinum ferðaþjónustunnar og hluti veitingastaða á landsbyggðunum upplifði sitt besta sumar árið 2020. 

Skýrslan í heild: