Fara í efni

Stöðuskýrsla (Q3) Evrópska ferðamálaráðsins - European Tourism: Trends and prospects

Forsíða skýrslunnar.
Forsíða skýrslunnar.

Þriðja ársfjórðungsskýrsla Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) fyrir árið 2020 kom út á dögunum en þar er fjallað um þróunina í ferðaþjónustu út frá fyrirliggjandi gögnum. Í skýrslunni sem unnin er af ráðgjafafyrirtækinu Tourism Economics fyrir ETC snýst umfjöllunin að stórum hluta, líkt og í tveimur fyrri útgefnum skýrslum á árinu, um þróun heimsfaraldursins Covid-19 og það ástand sem skapast hefur í ferðaþjónustu með fækkun ferðamanna.

Ferðamálastofa á aðild að ráðinu ásamt ferðamálastofnunum 30 annarra Evrópulanda sem gerir m.a. kleift að meta hvernig íslensk ferðaþjónusta kemur út í alþjóðlegum samanburði.

Hægur bati samkvæmt spám

Samkvæmt nýjustu spá Tourism Economics er gert ráð fyrir að komum ferðamanna á heimsvísu fækki um einn milljarð milli ára 2019-2020 eða um 65%. Í Evrópu er gert ráð fyrir 61% samdrætti og að eftirspurnin muni ekki ná heildarumfangi ferðaþjónustunnar árið 2019 fyrr en árið 2024. Ferðavenjur hafa breyst í kjölfar heimsfaraldursins og hefur verið aukin eftirspurn eftir innanlandsferðum og ferðalögum til nærmarkaða. Tourism Economics gerir ráð fyrir að innanlandsferðir muni ná sér fljótt aftur á strik og verði orðnar meiri að umfangi árið 2022 en þær voru árið 2019. Umfang ferðalaga til nærmarkaða muni síðan ná styrk ársins 2019 árið 2023 og til fjarmarkaða árið 2025.

Sumarið 2020

Það að slakað var á ferðatakmörkunum víðs vegar um Evrópu í byrjun sumars leiddi til smávægilegrar aukningar í ferðalögum í júlí og ágúst í samanburði við mánuðina á undan. Enginn áfangastaður innan Evrópu var að ná til sín þeim fjölda erlendra ferðamanna sem gera mætti ráð fyrir í eðlilegu árferði. Meiri eftirspurn var eftir ferðum á fáfarna staði í Evrópu þar sem auðvelt var að viðhafa sóttvarnir. Skýrsluhöfundar gefa til kynna að sundurleitar aðgerðir Evrópulanda til að endurvekja ferðalög milli landa hafi komið í veg fyrir að ferðaþjónustan náði sér á strik í sumar. Ný bylgja faraldursins í haust og hertar ferðatakmarkanir í kjölfarið hafa síðan aukið enn á óvissuna.

Ísland í hópi Evrópulanda með mestan samrátt

Ísland er í hópi þeirra áfangastaða í Evrópu sem hafa séð hvað mestan samdrátt í komum ferðamanna á árinu eða um 70% fækkun. Malta, Portúgal og Serbía eru með álíka fækkun en þau lönd sem hafa orðið hvað verst úti eru Kýpur, Svartfjallaland, Rúmenía og Tyrkland með um og yfir 77% fækkun.

Ferðaáhuginn enn til staðar

Skýrsluhöfundar nefna að samræmdar aðgerðir í prófunum og rakningu samhliða sóttvarnarráðstöfunum skipti sköpum fyrir ferðaþjónustuna þar til bóluefni sé komið á markaðinn. Þrátt fyrir heimsfaralduinn er ferðaáhuginn enn til staðar og má gera ráð fyrir að ferðaþjónustan taki fljótt við sér að faraldrinum loknum. Niðurstöður úr nýlegri farþegakönnun IATA benda t.a.m. til þess að meira en helmingur svarenda hafi í hyggju að ferðast innan þriggja mánaða að heimsfaraldri loknum. Þar til ferðaþjónustan fer á fullt skrið aftur gefst hins vegar áfangastöðum innan Evrópu  einstakt tækifæri til að endurhugsa ferðaþjónustuna, svo vitnað sé í ummæli Eduardo Santander, framkvæmdastjóra ETC í skýrslunni ,,Gone are the days where growth was the only indicator of tourism success. Today any strategy must be accompanied by a sustainable transition to embrace environmental and digital realities. Investing in European tourism means promoting the power of travel to help local communities thrive and to preserve the European spirit and citizenship. These changes will also have to be accompanied by new tourism policies and a strong commitment at local, regional, national and European level”. 

Skiptist í 7 kafla

Skýrslan samastendur af sjö köflum auk samantektar og viðauka. Í fyrsta kafla er í stuttu máli gefið almennt yfirlit yfir stöðu mála og komur erlendra ferðamanna til aðildarlanda ETC það sem af er ári í samanburði við 2019. Í öðrum kafla birtist spá Tourism Economics um þróunina í ferðalögum eftir heimsálfum til ársins 2023, í þeim þriðja er fjallað um afkomuna út frá nýjustu tölum með megináhersu á flugiðnaðinn og gistigeirann og í þeim fjórða er komið inn á ýmsa þætti eins og viðskiptaferðir, árstíðasveiflu og gistinætur pr. íbúa. Í fimmta kafla má sjá frammistöðu aðildarlanda ETC hvað varðar komur og gistinætur hvað varðar einstaka upprunalönd. Í sjötta kafla er m.a. dregin fram hlutdeild Evópu í ferðalögum nokkurra þjóða á fjarmörkuðum skipt eftir landfræðilegri staðsetningu og er þá Ísland flokkað með hinum Norðurlöndunum, Írlandi og Bretlandi sem norðurhluta Evrópu. Í sjöunda kafla má síðan finna umfjöllun um efnahagshorfur og er Evrusvæðinu, Bretlandi, Bandaríkunum, Japan og nýmörkuðum gerð sérstök skil.
 

Opna skýrsluna (pdf)