Fara í efni

Skilmálar um endurgreiðslu hjá gististöðum

Akureyri. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Akureyri. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Undanfarið hefur borið á að stórar bókunarsíður sem íslenskir ferðaþjónustuaðilar eiga viðskipti við hafi þrýst á ferðaþjónustuaðila að samþykkja endurgreiðslu vegna afbókana á gistirýmum þrátt fyrir að bókun hafi verið gerð með þeim skilmálum að hún sé óendurgreiðanleg. Dæmi eru um að bókunarsíður hafi tilkynnt um afbókun gistirýmis sem bókað hefur verið með þeim skilmálum að það sé óendurgreiðanlegt, endurgreitt viðskiptavini og krafið ferðaþjónustuaðilann um endurgreiðslu.

Ferðamálastofa vekur athygli á að í flestum tilvikum hafa bókunarsíðurnar sett slíka skilmála einhliða eftir að COVID-19 faraldurinn braust úr á þessu ári. Ferðaþjónustuaðilum er hins vegar að mati Ferðamálastofu ekki skylt að verða við kröfum bókunarsíða um endurgreiðslu bókana sem bókaðar hafa verið sem óendurgreiðanlegar á grundvelli slíkra einhliða skilmála bókunarsíða. Verður hver ferðaþjónustuaðili fyrir sig að meta hvort hann telji tilefni til að samþykkja slíka kröfu ef hún berst.

Áréttað er að sem stendur eru ekki í gildi ferðatakmarkanir til Íslands og verða afbókanir ekki byggðar á ómöguleika við nýtingu bókunar. Þá hefur landið heldur ekki verið skilgreint sem svæði með mikla áhættu vegna COVID-19. Ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að fylgjast vel með afbókunum sem berast frá bóknunarsíðum á þessum grundvelli.

Ferðamálastofa óskaði eftir lögfræðiáliti vegna þessa hjá Magna lögmönnum og má nálgast það hér að neðan, bæði á íslensku og ensku: