Skammtímahagvísar ferðaþjónustu í júlí 2020

Hagstofan birti í morgun samantekt á ýmsum áður birtum tölulegum upplýsingum sem þeir kalla skammtímahagvísa ferðaþjónustu í júlí. Sjá má tilkynningu Hagstofunnar hér en að neðan er það helsta úr henni.

Gistinóttum fækkaði um 79% í júní

Samkvæmt bráðabirgðamati fækkaði gistinóttum á hótelum í júní um 79% frá síðasta ári en fækkunin nam 88% í maí síðastliðnum. Þarna munar mest um opnun landsins fyrir tilteknum fjölda erlendra ferðamanna dag hvern frá miðjum júní. Framboð hótelgistingar hefur einnig dregist saman um 26% en 47 hótel höfðu lokað dyrum sínum í maí. Herbergjum í boði fækkaði við það úr um 11 í 8 þúsund. Nettóniðurstaða þessara breytinga í framboði og eftirspurn var að nýtingarhlutfall hótela lækkaði um 47 prósentustig í maí, úr 56% í fyrra í 9% í ár. Bílaleigubílum í umferð nú í júlí hefur hins vegar fækkað um „aðeins“ 37% frá júlí í fyrra. Umferð á hringveginum hefur minnkað enn minna, um 18% í júní frá fyrra ári, mest á Austurlandi um 35% en minnst á Vesturlandi, um 9%. Á Suðurlandi minnkaði umferðin um 22% í júní og 20% á Norðurlandi.

Tekjur af erlendum ferðamönnum dregist verulega saman

Hagstofan metur það svo að tekjur hagkerfisins af erlendum ferðamönnum hafi dregist saman um 28% á 1. fjórðungi þessa árs miðað við sama fjórðung í fyrra, úr um 93 mö.kr. í um 67 ma.kr. (sjá meðfylgjandi mynd). Sé litið til síðustu fjögurra fjórðunga saman nemi tekjusamdrátturinn um 14%, 25% í flugi og 9% í öðrum þáttum ferðaþjónustu. Velta ferðaþjónustugreina skv. virðisaukaskattsskýrslum, sem ná aðeins til tímabilsins janúar-febrúar í ár, minnkaði hins vegar aðeins um 10% miðað við sama tímabil í fyrra.

Fækkun skráðra launþega mest í flugi 

Hagstofunni telst til að skráðir launþegar í ferðaþjónustu hafi verið um 9% færri í febrúar síðastliðinn miðað við febrúar í fyrra. Mest hafi fækkunin orðið í flugi eða 25% en minnst í rekstri gististaða, um 3%.
Hagstofan birtir nú einnig upplýsingar um fjölda brottfararfarþega í júní sem byggja á talningu Ferðamálastofu og við birtum á heimasíðu okkar 9. júlí eins og sjá má hér.


Athugasemdir