Fara í efni

Sjálfbær ferðaþjónusta til framtíðar

Úr handbók ETC
Úr handbók ETC

Heimsfaraldur Covid-19 hefur haft margvísleg áhrif á samfélög og líf fólks um allan heim og kallað fram ýmsar breytingar, aðrar áherslur og nýjar hugsanir. Faraldurinn hefur lagst þungt á ferðaþjónustuna með þeirri lægð sem við þekkjum en tíminn, sem gefist hefur undanfarin misseri, hefur veitt aðilum í ferðaþjónustu tækifæri til að staldra við, endurmeta og setja sér ný markmið til framtíðar.

Framtíðarhorfur

Hvernig viljum við að ferðaþjónustan þróist eftir Covid -19? Hvaða áherslur eiga að vera bæði í rekstri fyrirtækja og þegar kemur að því að skipuleggja áfangastaði, og hvernig skal hátta þeirri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað?

Í síðustu viku birti Ferðamálastofa frétt um nýútkomna handbók á vegum Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) um sjálfbæra ferðaþjónustu „Encouraging Sustainable Tourism Practices“. Þar kom m.a. fram að allir sem koma að ferðaþjónustu; yfirvöld og stefnumótandi aðilar, sveitarfélög, stofnanir, samtök  og fyrirtæki svo og ferðamenn hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að breyta því sem þarf á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu.

Kannanir sýna að væntingar og kröfur neytenda hafa breyst og það hvernig áfangastaðir og fyrirtæki standa sig, með tilliti til sjálfbærni, hefur nú meiri áhrif á ferðahegðun og ákvarðanir fólks en áður.

Aðlögun að breyttum áherslum

Í handbók ETC er lögð áhersla á mikilvægi þess að hagsmunaaðilar aðlagist breyttum áherslum og tileinki sér nýja starfshætti í enduruppbyggingu ferðaþjónustunnar. Þannig megi auka jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar og draga úr þeim neikvæðu.  Nálgast þarf hugtakið sjálfbærni í allri stefnumótun og framtíðarsýn og mikilvægt er að finna leiðir til að auðvelda ferðamönnum að ferðast á umhverfisvænni, sjálfbærari og ábyrgari hátt. En þetta gerist ekki á einni nóttu, þetta er vegferð og allir hagsmunaaðilar þurfa að hafa sameiginlega sýn á sjálfbæra ferðaþjónustu til framtíðar.

Í handbókinni kemur ennfremur fram að áfangastaðir hafi mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að styrkja stöðu ferðaþjónustu í Evrópu og leiða þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað eftir heimsfaraldurinn.

Handbókinni er m.a. ætlað að styðja við uppbyggingu ferðaþjónustunnar  og vera leiðbeinandi fyrir stjórnvöld og áfangastaðastofur (NTO og DMO) í að byggja upp sjálfbærari  áfangastaði til framtíðar.

Handbókinni er skipt í 3 meginkafla; sá fyrsti fjallar um að skilja hugtakið sjálfbærni, í kafla tvö eru settar fram 20 dæmisögur um ábyrga starfshætti sem hvetja til sjálfbærrar ferðaþjónustu og í þeim þriðja má svo finna niðurstöður og tillögur.

Hægt er að hlaða handbókinni frítt niður hér.