Fara í efni

Samráðshópur um málefni Reynisfjöru skipaður til að efla öryggi ferðamanna

Reynisfjara - Mynd: Þórir N Ⓒ Markaðsstofa Suðurlands
Reynisfjara - Mynd: Þórir N Ⓒ Markaðsstofa Suðurlands

Samráðsfundur stjórnvalda með landeigendum í Reynisfjöru var haldinn í Vík í Mýrdal þriðjudaginn 21. júní 2022. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra ávarpaði fundinn og hvatti til áframhaldandi samstarfs og aðgerða um öryggi ferðamanna. Á fundinum kynntu fulltrúar Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar og almannavarnadeildar lögreglunnar á Suðurlandi vinnu við gerð áhættumats fyrir Reynisfjöru og hugmyndir um uppsetningu viðvörunarkerfis í fjörunni. Íris Guðnadóttir, einn landeiganda kynnti hugmyndir um innviðauppbyggingu og hugmyndir að auknu öryggi í fjörunni.

Málefnalegar umræður voru á fundinum. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að tryggja sem best öryggi ferðamanna sem heimsækja Reynisfjöru. Bæði þurfi að taka ákveðin skref í átt til bætts öryggis á svæðinu til skemmri tíma og lengri. Fundarmenn voru sammála um að ljúka uppsetningu viðvörunarkerfis í fjörunni.

Fundurinn ákvað að eiga formlegt samstarf um að efla öryggi ferðamanna í Reynisfjöru. Samráðshópur taki til starfa þar sem taki þátt fulltrúar landeigenda, Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar, almannavarnardeildar lögreglunnar á Suðurlandi, Landsbjargar, Mýrdalshrepps og Ferðamálastofu. Samráðshópurinn geri tímasetta aðgerðaáætlun og skili tillögum sínum til ráðherra ferðamála í síðasta lagi 30. september 2022.