Fara í efni

Samfélagsmiðlar eru um sambönd og samtal

Lella Erludóttir
Lella Erludóttir

„Ef þú ætlar að nota samfélagsmiðla sem einhliða rás til að segja viðskiptavinum hvað þeir ætla að hlusta á, þá ertu algerlega á villigötum, segir Lella Erludóttir, markaðsstjóri Ferðaþjónustu bænda, í öðrum þætti af Ferðalausnir – stafræn tækifæri. Í myndbandinu fer Lella yfir tækifæri og áskoranir við notkun samfélagsmiðla og hvernig hægt er að nýta þá með áhrifaríkum hætti í ferðaþjónustu.

Tækifæri til að hlusta á notandann

„Samfélagsmiðlar eru um sambönd, um samtal og þeir eru hlustun og þeir snúast um frásagnir og andagift. Þeir eru tækifæri fyrir þig til að hlusta á notandann, hlusta á viðskiptavininn,“ segir Lella m.a.

Ferli sem tekur tíma

Hún leggur áherslu á að notkun samfélagsmiðla sé ekki bara eitt skref, heldur ferli sem tekur tíma. Nauðsynlegt sé að byggja upp viðveru og traust. „Ef þú átt í þessu stöðuga og góða sambandi við notandann, þá treystir hann þér betur,“ segir Lella.

Styðja við annað starf

Þá sé mikilvægt að hafa hugfast að samfélagsmiðlar standa ekki einir og sér heldur er hlutverk þeirra að styðja við allt annað sem fyrirtæki eru að gera í markaðsstarfi og starfsemi sinni almennt. Þeir eru tæki til að auka sýnileika á vefsíðu fyrirtækis og þeir eru til að hlusta á viðskiptavininn og fá upplýsingar um hann. Með þeim er einnig mögulegt, ef rétt er staðið að málum, að deila efni hraðar og á auðveldari hátt en áður.

100% aukning í umferð frá samfélagsmiðlum

Ferðaþjónusta bænda tók samfélagsmiðla fastari og markvissari tökum í byrjun árs 2017 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Þannig hefur fjölgun fylgjenda verið mikil og umferð inn á vef fyrirtækisins frá samfélagsmiðlum hefur aukist um nærri 100%.

Ferðalausnir - Stafræn tækifæri 

Sem fyrr segir er myndbandið annar þátturinn af hagnýtum vef-vinnustofum sem Ferðamálastofa í samstarfi við Íslenska ferðaklasann mun standa fyrir á næstu mánuðum undir nafninu Ferðalausnir - Stafræn tækifæri. Markmiðið er að sýna, kynna og miðla þekkingu og reynslu til fyrirtækja í ferðaþjónustu á sviði aukinnar tækni og öflugri miðlunar. Mun nýtt efni vera frumsýnt á tveggja vikna fresti.

Þáttinn með Lellu Erludóttur  má horfa á hér að neðan.