Rannsóknamiðstöð ferðamála greinir aðlögunarhæfni og seiglu í ferðaþjónustu

Rannsóknamiðstöð ferðamála greinir aðlögunarhæfni og seiglu í ferðaþjónustu
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Ákveðið er að semja við Rannsóknamiðstöð ferðamála um rannsóknarverkefni um aðlögunarhæfni og seiglu í ferðaþjónustu hér á landi. Reynslan sýnir að ferðaþjónusta getur verið sveiflukenndur atvinnuvegur. Það er ekki aðeins að grunneftirspurnin geti verið breytileg heldur geta náttúruhamfarir eins og eldgos, innlendar efnahagsaðstæður og heimsfaraldrar eins og Covid-19 valdið verulegum sveiflum í bæði umsvifum í greininni og afkomu. Það er því rík ástæða til að hugleiða hvernig ferðaþjónustan getur mætt þessum breytileika og staðið erfið tímabil af sér.  

Fyrsti áfangi í viðameiri rannsókn

Um er að ræða fyrsta áfanga í viðameiri rannsókn. Áfanginn nær til áhrifa Covid-veirunnar á ferðaþjónustuna og viðbrögðum hennar. Rakin verður atburðarás þessa mikla áfalls, viðbrögð greinarinnar og hins opinbera við því og árangurinn af þessum viðbrögðum. Gert er ráð fyrir að niðurstöður rannsóknarinnar verði birtar í lok næsta árs.  

Hluti af rannsóknaráætlun Ferðamálastofu

Ferðamálastofa auglýsti verkefnið til umsóknar þann 11. september síðastliðinn. Fimm umsóknir bárust.

Verkefnið er hluti af rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2020-2022 en tilgangur hennar er fyrst og síðast að efla þekkingu á ferðaþjónustu sem lykilatvinnugrein og samspili hennar við aðrar megingreinar í íslensku efnahagslífi. Slík þekking og samsvarandi greiningartæki eru mikilvægur grundvöllur stefnumótunar og ákvarðanatöku stjórnvalda, fyrirtækja í greininni og fjármögnunaraðila þeirra.


Athugasemdir