Fara í efni

Ráðgjöf um rannsóknarverkefni 2022-24

Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Fyrr á árinu birti Ferðamálastofa rannsóknaráætlun sína, sem nær til áranna 2021-2023. Veigamikill þáttur við árlega mótun og gerð rannsóknaráætlunar Ferðamálastofu er aðkoma ráðgefandi nefndar um gagnaöflun og rannsóknir. Hefur nefndin nú skilað ráðgjöf sinni fyrir næsta tímabil, þ.e. árin 2022-24.

Með samsetningu nefndarinnar er leitast við að draga að vísindalega þekkingu, kunnáttu og sérfræði hagsmunaðila í greininni. Nefndin fjallaði um ráðgjöf sína um verkefni fyrir rannsóknaráætlun áranna 2022-24 á fimm fundum á tímabilinu 14. apríl til 23. júní 2021. Auk þess gengu drög að ráðgjöf nefndarinnar milli nefndarmanna til athugasemda fram til loka júlí. Ráðgjöf nefndarinnar má nálgast hér að neðan. 

Ráðgjöfin skiptist í fjóra hluta:

I. forsendur ráðgjafarinnar 
II. verkefni í vinnslu 
III. ný verkefni 
IV. önnur atriði sem nefndin vill koma á framfæri.

Þar eð ekki voru taldar horfur á verulegu fé í ný gagnaöflunar- og/eða rannsóknarverkefni að sinni beindist starf nefndarinnar einkum að yfirstandandi verkefnum og hvort og þá hvernig þau megi bæta. Hefur nefndin í því efni notið greiðvikinnar aðstoðar þeirra starfsmanna FMS sem hafa umsjón með viðkomandi verkefnum. Nefndin hefur hins vegar ýmsar hugmyndir um ný gagnleg rannsóknarverkefni. Var slíkum hugmyndum komið á framfæri í ráðgjöf fyrir tímabilið 2021-23 og er enn haldið til haga í ráðgjöf hennar fyrir tímabilið 2022-24.

Nefndina skipa:

  • Dr. Ragnar Árnason, prófessor emeritus við Háskóla Íslands 
    – tilnefndur af Ferðamálastofu, formaður.
  • Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri Ferðamáladeildar og lektor við Háskólann á Hólum
    – tilnefnd af samstarfsnefnd háskólastigsins.
  • Dr. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við Háskóla Íslands
    – tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins.
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
    – tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
  • Vilborg Helga Júlíusdóttir, hagfræðingur SAF
    – tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar.
  • Hildur Kristjánsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu ferðamála og nýsköpunar
    – tilnefnd af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
  • Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu
    –tilnefndur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Ráðgjöf um rannsóknarverkefni 2022-24