Play hefur hætt starfsemi - Réttarstaða ferðamanna og upplýsingar til ferðaskrifstofa
Flugfélagið Play hefur hætt starfsemi og hér að neðan er að finna mikilvægar upplýsingar til farþega og ferðaskrifstofa.
Upplýsingar til ferðamanna
Hver er staða mín sem ferðamanns ef ég á flug með Play
Hér skiptir máli hvort flugið sé hluti af pakkaferð eða ferðamaður hafi keypt stakan flugmiða með Play.
Farþegar í pakkaferð
Farþegar sem keypt hafa pakkaferð eða eru nú þegar í pakkaferð, og flughluti ferðarinnar er með Play, ber að snúa sér til ferðaskrifstofunnar varðandi frekari upplýsingar.
Sé flug með Play hluti af pakkaferð ber ferðaskrifstofan ábyrgð á að koma farþegum sínum á áfangastað og til baka aftur.
Sé pakkaferð ekki hafin ber ferðaskrifstofu að útvega farþegum sínum annað flug til að uppfylla skyldur sínar eða endurgreiða pakkaferðina.
Um sölu pakkaferða gilda lög um um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018. Nánari upplýsingar veitir Neytendastofa, https://neytendastofa.is/
Þegar keyptur er stakur farmiði
Hafi farþegi keypt stakan flugmiða með Play verður hann sjálfur að koma sér heim og á eigin kostnað. Farþegum Play er bent á að kanna möguleika á flugi hjá öðrum flugfélögum eða ferðaskrifstofum.
Þeir sem keypt hafa staka flugmiða og greitt með debit- eða kreditkorti geta átt endurkröfurétt frá kortafyrir. Þeim er bent á að hafa samband við sinn viðskiptabanka eða greiðslukortafyrirtæki.
Nánar um réttarstöðu flugfarþega við aðstæður sem þessar má lesa hér
Nánari upplýsingar verða uppfærðar á vef Samgöngustofu eftir því sem nýjar upplýsingar berast.
Upplýsingar til ferðaskrifstofa
Flugfélagið Play hefur hætt starfsemi og hér að neðan er að finna mikilvægar upplýsingar til ferðaskrifstofa sem hafa selt pakkaferðir þar sem flughlutinn er með Play.
Ábyrgð ferðaskrifstofa
Ferðaskrifstofan ber ábyrgð á að pakkaferð sé í samræmi við samning. Sé flutningur hluti af pakkaferðasamningi ber ferðaskrifstofunni að koma ferðamönnum á áfangastað og til baka aftur.
Ferðaskrifstofan ber því ábyrgð á að útvega nýtt flug og koma viðskiptavinum sínum heim (þar sem flug með Play var innifalið) skv. pakkaferðasamningi þrátt fyrir að Play sé gjaldþrota.
Ef pakkaferð er ekki hafin og flughluti pakkaferðar er með Play ber ferðaskrifstofunni að gera viðeigandi ráðstafanir:
- Aflýsa ferð gegn fullri endurgreiðslu eða;
- Útvega nýtt flug og breyta pakkaferðarsamningi til samræmis við breyttar forsendur.
Sé ferð ekki hafin ber ferðaskrifstofu að tilkynna viðskiptavinum sínum um ákvörðun sína án tafar. Ferðamenn eiga val um að samþykkja breytingar á pakkaferðasamningi eða afpanta pakkaferð gegn fullri endurgreiðslu sé talið að um verulega breytingu að ræða á megineinkennum ferðatengdu þjónustunnar.
Vakin er athygli á því að ekki er heimilt að gera verðhækkanir á pakkaferð komi til aukins kostnaðar við útvegun nýs flugs. Lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 setja ströng skilyrði fyrir verðhækkunum skv. 12. gr. laganna.
Neytendastofa veitir frekari upplýsingar um skyldur ferðaskrifstofa við þessar aðstæður.
Engar endurgreiðslur úr Ferðatryggingasjóði
Ferðatryggingasjóður endurgreiðir hvorki staka flugmiða né aflýstar pakkaferðir vegna gjaldþrotsins. Sjóðurinn endurgreiðir eingöngu greiðslur vegna pakkaferða eða heimflutnings þegar ferðaskrifstofa verður gjaldþrota eða missir leyfi sitt. Play seldi ekki pakkaferðir og var því ekki leyfisskylt sem ferðaskrifstofa og ekki aðili að Ferðatryggingasjóði.
Ferðaskrifstofur eru hvattar til að kynna sér flugframboð annarra ferðaskrifstofa og flugfélaga við útvegun á nýju flugi.