Fara í efni

Niðurstöður landamærakönnunar meðal erlendra ferðamanna um Akureyrarflugvöll

Niðurstöður landamærakönnunar meðal erlendra ferðamanna um Akureyrarflugvöll

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) hefur birt samantekt með niðurstöðum úr könnun sem  gerð var meðal erlendra ferðamanna í beinu millilandaflugi frá Akureyrarflugvelli veturinn 2024-2025. Náði hún til farþega sem voru í áætlunarflugi á leið til Bretlands, Hollands eða Sviss.

 

Kanna áhrif beinna flugsamgangna

Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um ferðavenjur, útgjöld og upplifun ferðamanna sem nýttu sér beint millilandaflug frá Norðausturlandi að vetrarlagi. Sérstök áhersla var á að kanna hvort og hvernig beinar flugsamgöngur stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna og styrkingu ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins yfir vetrarmánuðina. 

 

Meginniðurstöður

Í frétt á vef RMF kemur fram að:

  • Meirihluti ferðamanna dvaldi að mestu leyti á Norðurlandi og heimsótti meðal annars Akureyri, Goðafoss og Mývatnssveit.
  • Lítill hluti svarenda heimsótti Austurland en fór þá helst til Egilsstaða, að Hengifossi og Stuðlagili.
  • Dvalartími á Austurlandi var að jafnaði styttri en á Norðurlandi en upplifunin fyrir austan var engu að síður mjög góð.
  • Ferðamenn lýstu almennri ánægju með náttúru og þjónustu í báðum landshlutum.
  • Náttúran, kyrrðin og norðurljósin var helsta aðdráttaraflið og meðmælaskor var hátt.
  • Margir þátttakendur sögðust líklega ekki hafa komið á Norður- og Austurland nema vegna beinna flugsamgangna.

 

Um könnunina

Könnunin var unnin í samstarfi við Isavia, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú, með stuðningi frá atvinnuvegaráðuneytinu. Hún fór fram á Akureyrarflugvelli frá desember 2024 og til loka apríl 2025. Á tímabilinu voru fjórar beinar flugleiðir frá Evrópu til Akureyrar. Lággjaldaflugfélagið EasyJet bauð upp á áætlunarflug tvisvar í viku frá Gatwick-flugvelli í London og Manchester frá nóvember til loka apríl 2025. Frá janúar til mars bauð hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel vikulegar ferðir frá Amsterdam í samstarfi við flugfélagið Transavia. Svissneska ferðaskrifstofan Kontiki stóð að vetrarferðum með beinu flugi frá Zürich í febrúar og mars 2025.

Samantekt með niðurstöðum