Fara í efni

Lykilfólk í ferðamálum Evrópu fundar á Íslandi

Í dag voru stjórnarfundur og aðalfundur ETC haldnir í Bláa lóninu og var myndin tekin að þeim loknum…
Í dag voru stjórnarfundur og aðalfundur ETC haldnir í Bláa lóninu og var myndin tekin að þeim loknum. Mynd: Ragnheiður Arngrímsdóttir

Helsta áhrifafólk í ferðamálum Evrópu, um 70 manns, er nú statt á Íslandi. Um er að ræða aðalfund og stjórnarfund Evrópska ferðamálaráðsins, eða European Travel Commission, skammstafað ETC. Dagskránni lýkur með heils dags alþjóðlegri ráðstefnu í Hörpu undir yfirskriftinni „Tourism and Communities: Building Bridges Amid Unbalanced Growth.“ Ferðamálastofa sér um framkvæmd á viðburðunum í samvinnu við ETC.

 

Ísland meðal stofnaðila

ETC eru nærri 80 ára gömul samtök en Ísland var meðal þátttakenda á stofnfundinum í Stalheim í Noregi árið 1948. Aðild eiga ferðamálaráð Evrópulanda auk fyrirtækja og samtaka í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Má þar nefna ferðaþjónustusamsteypur eins og Expedia, Airbnb, Hilton og Amadeus, ásamt stórfyrirtækjum á borð við Google og Mastercard. Má því með sanni segja að margt helsta lykilfólk úr greininni verði hér saman komið.

 

Öflugt rannsókna- og kynningarstarf

ETC hefur nokkuð víðtæku hlutverki að gegna. Á vegum samtakanna er m.a. stundað öflugt starf á sviði rannsókna og kannana, sem Ísland nýtur góðs af. Einnig markaðsstarf á fjarmörkuðum, hagsmunagæsla fyrir greinina og ýmislegt fleira sem talið er efli og styrki ímynd Evrópu sem áfangastaðar ferðafólks.

 

Heiður fyrir Ísland

„Fyrir Ferðamálastofu og Ísland er mikill heiður að fá tækifæri til að halda viðburð af þessari stærðargráðu. Ég tel að hér gefist okkur einstakt tækifæri til að kynna milliliðalaust fyrir áhrifafólki í greininni hvað Ísland hefur verið að gera á sviði ferðamála og hvert við stefnum. Ég hef skynjað mikinn áhuga hjá kollegum mínum í Evrópu á að kynnast af eigin raun hvað Ísland hefur upp á að bjóða en gagnkvæm miðlun þekkingar er einmitt einn stærsti ávinningurinn af samstarfi á borð við ETC,“ segir Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri.

 

Samspil ferðaþjónustu og samfélagsins 

Meginþema dagskrárinnar á Íslandi er hið flókna samspil ferðaþjónustu og samfélagsins sem hún starfar í. Meðal annars verður leitað svara við spurningunni hvort ferðaþjónustan geri samfélögum meira gagn en ógagn og hvernig megi stuðla að sjálfbærum vexti til framtíðar. 

 

Sameiginleg yfirlýsing kennd  við Reykjavík

Í lok dagskrárinnar verður skrifað undir sameiginlega yfirlýsingu allra aðildarlanda, kennda við Reykjavík 2025, þar fram kemur sú framtíðarsýn að markmið ferðaþjónustu í Evrópu sé að auka velferð íbúa allrar álfunnar. Með yfirlýsingunni skuldbinda aðildarlönd ETC sig að stuðla að blómlegum samfélögum, verndun menningar- og náttúruauðlinda og að samskipti gesta og heimamanna byggist á gagnkvæmri virðingu.

 

Nánari upplýsingar: Halldór Arinbjarnarson upplýsingastjóri
halldor@ferdamalastofa.is - GSM: 861-4331