Fara í efni

Fyrstu skýrslur um gerð þjóðhagslíkans fyrir ferðaþjónustuna

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Ferðamálastofa réð sl. haust fyrirtækið Hagrannsóknir sf. til að gera þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna og sem tengja má við þjóðhagslíkön hins opinbera. Í fyrstu niðurstöðum kemur fram að heppilegast sé að þróa fyrst svokallað CGE ferðageiralíkan fyrir Ísland.  

Búa til betra greiningartæki fyrir stjórnvöld og atvinnugreinina 

Tilgangurinn er að búa til betra tæki til högg- og aðgerðagreininga fyrir stjórnvöld og atvinnugreinina, til að bregðast megi réttar og hraðar við breyttum aðstæðum. Einnig er markmiðið að bæta mat á samspili ferðaþjónustu við aðra geira hagkerfisins almennt. 

Fyrstu áfangar af mörgum í þriggja ára rannsóknarverkefni 

Hagrannsóknir hafa nú skilað Ferðamálastofu fyrstu tveimur áfangaafurðum verkefnisins, sem Ferðamálastofa gefur út í dag í ritröð sinni með rannsóknarverkefnum í ferðaþjónustu. Afurðirnar eru greiningarskýrslur um helstu gerðir þjóðhagslíkana almennt, annars vegar, og um þau líkön sem til greina koma fyrir ferðaþjónustuna og rökstuðningur fyrir vali félagsins á líkani, hins vegar. Skýrslurnar eru fyrstu vörðurnar á þriggja ára leið með reglulegri birtingu afurða verkefnisins á vegum Ferðamálastofu og kynningu Hagrannsókna á þeim fyrir fræðasamfélaginu, stjórnvöldum og atvinnugreininni. 

Niðurstöður: Hverskonar líkan hentar best 

Til að þróa ferðageiralíkan fyrir Ísland er nærtækast að byrja á svokölluðu CGE1 ferðageiralíkani.  

Skipta má nútíma þjóðhagslíkönum sem teljast til almennra jafnvægislíkana í DSGE2 og CGE líkön. DSGE líkön teljast til hagsveiflulíkana og eru einkum notuð til þess að greina áhrif ytri breytinga sem hafa tímabundin áhrif á hagkerfi á meðan CGE líkön teljast til hagvaxtarlíkana og eru einkum notuð til þess að greina áhrif ytri breytinga til lengri tíma.  

Undanfarna tvo áratugi eða svo hafa verið hönnuð fjölmörg CGE ferðageiralíkön og enn fleiri CGE líkön með ítarlegri geiraskiptingu á framleiðsluhlið hagkerfisins. Því er til staðar mikil reynsla af notkun CGE ferðageiralíkana auk þess sem CGE líkön uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þjóðhagslíkana nú til dags. Þessi reynsla erlendis af hönnun og notkun CGE ferðageiralíkana skiptir miklu máli. Segja má að DSGE ferðageiralíkön séu ekki eins „þekkt stærð“ og slík CGE líkön. Af því leiðir að við hönnun og notkun DSGE ferðageiralíkans eru meiri líkur á að þurfa að kljást við áður óþekkt vandamál, sem valdið geta erfiðleikum og töfum við hönnun líkansins. 

Segja má að æskilegt sé að til séu bæði DSGE og CGE ferðageiralíkön fyrir Ísland. Sé hins vegar haft í huga að reynsla erlendis af notkun CGE ferðageiralíkana er mun meiri en af notkun DSGE ferðageiralíkana, er heppilegra að sett sé í forgang að hanna CGE ferðageiralíkan fyrir Ísland. 

Hluti af vinnu við að hanna CGE ferðageiralíkan fyrir Ísland myndi nýtast við hönnum DSGE ferðageiralíkans verði síðar ákveðið að ráðast í hönnun á slíku líkani. Jafnframt verður væntanlega mögulegt að tengja ferðahlutalíkanið við önnur fyrirliggjandi þjóðhagslíkön fyrir Ísland sem teljast til almennra jafnvægislíkana.