Fara í efni

Fyrsta rannsóknaráætlun Ferðamálastofu

Mynd: © Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: © Ragnar Th. Sigurðsson

Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu í ferðaþjónustu 2020-2022 var birt á Samráðsgátt stjórnvalda í dag. Rannsóknaráætlunin sem er til þriggja ára fæst við þá gagnaöflun, greiningar og rannsóknir sem stjórnvöldum er nauðsynleg til ákvörðunartöku um uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu. 

Stuðningur við ákvörðunartöku og markmiðasetningu  

Gagnaöflun og rannsóknum á vegum Ferðamálastofu er ætlað "styðja við ákvörðunartöku og markmiðasetningu í greininni samkvæmt stefnu stjórnvalda" sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 20/2020.  Í rannsóknaráætluninni er leitast við að rannsóknir séu fræðilega vandaðar en jafnframt hagnýtar og að þær auðveldi stjórnvöldum og aðilum í greininni að taka upplýstar ákvarðanir.

Eitt af lögbundnum hlutverkum Ferðamálastofu er að fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi með því að vinna að samræmingu, greiningum og gagnaöflun ásamt miðlun og úrvinnslu upplýsinga á málefnasviði stofnunarinnar (Lög um Ferðamálastofu nr. 96/2018). 

Síðbúin áætlun

Þessi fyrsta rannsóknaráætlun er nokkuð síðbúin. Stafar það annars vegar af því að ofangreind reglugerð sem vinna við hana hvílir á var ekki gefin út fyrr en í janúar á yfirstandandi ári og hins vegar því að svonefndur COVID faraldur hefur tafið vinnu við áætlunargerðina.  Í framtíðinni er gert ráð fyrir að rannsóknaráætlun til næstu þriggja ára og verði gerð árlega og hún birt á vefsíðu stofnunarinnar fyrir áramót hvert ár. Gert er ráð fyrir að Ferðamálastofa endurskoði rannsóknaáætlun sem unnin er til þriggja ára í senn, árlega eða oftar ef nauðsyn krefur.

Umsagnarfrestur í Samráðsgátt er til 9. júlí 2020 

https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2709