Fara í efni

Ferðaþjónusta í tölum - Sumar 2019

Ferðaþjónusta í tölum - Sumar 2019

Í dag kom út Ferðaþjónustu í tölum – sumar 2019. Um er að ræða viðbót við mánaðarlegu útgáfuna sem kom út fyrr í mánuðinum. Þar eru teknar saman lykiltölur fyrir mánuðina júní, júlí og ágúst, með samanburði við fyrri ár.

Áhersla er lögð á að draga fram stutta samantekt um sumarferðamenn og þær breytingar sem hafa orðið. Í þessari útgáfu má m.a. finna:

  • Fjölda ferðamanna til landsins um Keflavíkurflugvöll að sumri
  • Tilgang Íslandsferðar og dvalarlengd
  • Heimsóknir eftir landshlutum
  • Gisting eftir landshlutum

Þriðja fjölmennasta frá upphafi

Nýliðið sumar er það þriðja fjölmennasta frá upphafi. Fækkun á milli ára er að mestu bundin við tvo markaði, Norður-Ameríku og Bretland á meðan Mið- og Suður-Evrópa heldur nánast hlut sínum og fjölgun er frá Asíu. Bandaríkjamenn voru eftir sem áður fjölmennastir eða 27,8% af heildarfjölda

Lengri meðaldvöl

Meðaldvalarlengd er heldur upp á við á milli ára og sem fyrr er það ferðafólk frá Mið- og Suður-Evrópu sem hefur lengsta viðdvöl. Langflestir voru hér í fríi eða 91,3% og dvöldu þeir að jafnaði um 7,8 nætur.

Dreifing um landið

Lagflestir heimsóttu Höfuðborgarsvæðið eða 89%, 81% Suðurland, 61% Reykjanes, 57% Vesturland, 42% Norðurland, 38% Austurland og 16% Vestfirði. Þegar svarendur voru hins vegar spurðir að því í hvaða landshluta þeir hefðu gist nefndu 75% Höfuðborgarsvæðið, 55% Suðurland, 36% Vesturland, 34% Norðurland, 28% Austurland, 24% Reykjanes og 10% Vestfirði.

Um tölurnar

Niðurstöður byggja á brottfarartalningum Ferðamálastofu og Isavia á Keflavíkurflugvelli og könnun Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands sem framkvæmd er meðal ferðamanna á Keflavíkurflugvelli. Með könnuninni var aflað upplýsinga um erlenda ferðamenn sem heimsóttu landið mánuðina júní til ágúst 2019. Um er að ræða könnun sem framkvæmd er við brottför í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Úrtakið að sumri 2019 nær til 5.827 manns.

Samantektin er unnin af Oddnýju Þóru Óladóttur hjá rannsókna- og tölfræðisviði Ferðamálastofu og er liður í aukinni áherslu Ferðamálastofu á rannsóknir, söfnun og miðlun talnaupplýsinga. Allar ábendingar um efni og efnistök eru vel þegnar og sendast á oddny@ferdamalastofa.is