Fara í efni

Ferðaþjónusta í tölum - janúar 2020

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Í samantektinni Ferðaþjónusta í tölum – janúar 2020 má sjá samantekt um fjölda ferðamanna til landsins, skráðar gistinætur, nýtingu á hótelum og nokkrar niðurstöður er varða dvöl ferðamanna á Íslandi s.s. um tilgang ferðar, dvalarlengd, heimsóknir eftir landshlutum sem og upplifun af Íslandsferð.

Um 71% ferðamanna eru af tíu þjóðernum

Á árinu 2019 komu tæplega tvær milljónir erlendra ferðamanna til landsins með flugi um Keflavíkurflugvöll eða um 14,2% færri en árið 2018. Fækkun átti sér stað alla mánuði ársins milli ára, hlutfallslega mest í maí (-23,6%) og september (-20,7%) en hlutfallslega minnst yfir vetrarmánuðina eða 5,8% í janúar, 6,9% í febrúar, 1,7% í mars og 8,6% í desember. Um 71% ferðamanna voru af tíu þjóðernum og voru Bandaríkjamenn, Bretar, Kínverjar, Þjóðverjar og Frakkar þau fjölmennustu. Bandaríkjamönnum fækkaði mest milli ára 2018-2019 eða um þriðjung, en næst mest var fækkun Kanadamanna (-20%) og Breta (-12%). Dreifing þjóðerna var mismunandi eftir mánuðum. Um tveir af hverjum fimm Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum og Frökkum komu að sumri til (júní-ágúst) en um þrír af hverjum fimm Bretum og tveir af hverjum fimm Kínverjum að vetri til (janúar-mars/nóv.-des.).

Langflestir eða um níu af hverjum tíu ferðamönnum voru í fríi á Íslandi eða álíka margir og árið 2018. Um 3,5% voru í heimsókn hjá vinum og ættingjum árið 2019 og álíka margir í  persónulegum tilgangi s.s. vegna heilsu og náms (3,3%)og í viðskiptatengdum tilgangi (3,0%).

Þjóðverjar, Frakkar, Spánverjar og Ítalir dvelja lengst

Dvalarlengd erlendra ferðamanna var um 6,6 nætur árið 2019 eða álíka löng og árið 2018. Lengst var dvalarlengdin í ágúst (8,4 nætur) og júlí (8,0 nætur) en styst í janúar (4,5 nætur) og febrúar (5,1 nótt). Af tíu fjölmennustu þjóðernunum voru Þjóðverjar, Frakkar , Spánverjar og Ítalir með lengstu dvalarlengdina eða meira en átta nætur.  

Skráðum gistinóttum fækkar lítillega

Skráðar gistinætur voru um tíu milljón talsins árið 2019 samkvæmt gistináttagrunni Hagstofunnar eða 3,1% færri en árið 2018. Tæplega þrjár af hverjum fimm gistinóttum voru á hótelum eða gistiheimilum eða álíka margar og árið 2018. Nýting hótelherbergja var yfir 70% á landsvísu á tímabilinu júní til september en lægst var hún í apríl (49%), janúar (50%) og desember (50%). Langflesta mánuði ársins  var  nýtingin best á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi.

NPS skort mælist hátt

Hátt NPS skor gefur til kynna hversu ánægðir ferðamenn eru með dvölina á Íslandi en það mældist 80 stig árið 2019.

 

Ferðaþjónusta í tölum er samantekt sem kemur út mánaðarlega. Allar ábendingar um efni og efnistök eru vel þegnar og sendast á oddny@ferdamalastofa.is.

 Ferðaþjónusta í tölum - fyrri útgáfur.