Fara í efni

Evrópubúar ætla að ferðast mikið í sumar - Láta hækkandi ferðakostnað ekki aftra sér

Forsíða skýrslunnar.
Forsíða skýrslunnar.

Þrátt fyrir mikla verðbólgu, heimsfaraldur og stríðsátök í Evrópu hafa 73% Evrópubúa áform um að ferðast á tímabilinu júní til nóvember í ár samkvæmt könnun sem Evrópska ferðamálaráðið (ETC) kynnti á heimasíðu ráðsins í síðustu viku. Könnunin er nú lögð fyrir í tólfta sinn meðal íbúa helstu ferðamannaþjóða Evrópu.¹

Áhugi fyrir því að ferðast til annars Evrópulands er nú meiri en á sama tíma í fyrra en tæplega þriðjungur (31%) hefur í hyggju að ferðast til næstu nágrannalanda og ríflega fjórðungur (27%) til Evrópulanda sem liggja fjarri. Þó svo Evrópubúar upplifi sig öruggari að ferðast en fyrir ári síðan þá hafði helmingur þeirra ekki bókað ferðir að fullu, skipulagðar í júní og júlí, þegar könnunin var gerð (maí) sem gefur til kynna að beðið sé eftir hagstæðum tilboðum fram á síðustu stundu.

Niðurstöðurnar sýna jafnframt:

  • að nærri þrír Evrópubúar af hverjum fimm (58%) ætla að fara a.m.k. tvær ferðir á tímabilinu júní til nóvember.
  • að flestir Evrópubúar hafa áform um að ferðast í júní og júlí (41%) eða ágúst og september (42%) og ætla langflestir að dvelja á bilinu 4-9 nætur
  • að vinsælustu ferðamannalöndin verða Spánn, Frakkland og Ítalía (10% nefndu hvert land) en þar á eftir fylgja Grikkland (7%) og Króatía (6%).
  • að veðrið, ferðatilboð og fámenni hafa úrslitaáhrif þegar kemur að vali á áfangastað en það sem ferðalanga hlakkar mest til er að verja tíma í náttúrunni, (19%), upplifa staðbundinn mat (16%) og sökkva sér í lífsstíl áfangastaða (16%).
  • að Evrópubúar eru óöruggari með fjárhag sinn en fyrir ári síðan. Tæplega fimmtungur (18%) hefur áhyggjur af verðbólgu og hækkandi verðlagi og skipta því þau kjör sem bjóðast á ferðum meira máli en fyrir ári síðan.
  • að af þeim sem eru opnir fyrir því að ferðast, ætlar þriðjungur í eina ferð, en nærri tveir af hverjum fimm í tvær ferðir.  Fimmtungur (20%) ætlar að fara í fleiri en þrjár ferðir. 
  • Að meira en einn þriðji er á því kórónaveirufaraldurinn sé ekki að hafa áhrif á ferðaplön en hlutfallið hefur ekki mælst svona hátt frá því í ágúst 2020.
  • að Evrópubúar eru ekki eins uppteknir af heilsu- og öryggiskröfum vegna kórónaveirufaraldurins og í síðustu mælingu sem var gerð í mars síðastliðnum (55% í maí vs 67% í mars).
  • Að áhugi fyrir því að ferðast næstu mánuðina er meiri hjá þeim sem eru eldri en 55 ára.

Könnunin í heild

Um könnunina

¹Könnunin var gerð dagana 9.-12. maí 2022 en sambærileg könnun hefur verið gerð þrettán sinnum frá haustmánuðum 2020, þær síðustu í mars síðastliðnum og í desember, september og júlí árið 2021.

Könnunin var upphaflega sett af stað til að vakta hvaða áhrif COVID-19 er að hafa á ferðaáætlanir og ferðalöngun Evrópubúa, hvers konar ferðalög Evrópubúar vilja fara, til hvaða áfangastaða, hvenær næstu frí verða tekin og hvort þeir óttist að ferðast. 

Könnunin náði til íbúa í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Belgíu, Sviss, Spáni, Póllandi og Austurríki og var bundin við þátttakendur sem höfðu farið í a.m.k. tvö ferðalög á síðustu þremur árum (2019-2022) þar sem gist var yfir nótt. Fjöldi svarenda var 6.005 talsins og voru 47% þátttakenda karlar og 53% konur.