Fara í efni

Einar Gústavsson: Kveðja frá Ferðamálastofu

Einar í 40 ára afmæli Ferðamálaráðs Íslands 2004.
Einar í 40 ára afmæli Ferðamálaráðs Íslands 2004.

Þann 25. janúar síðastliðinn lést Einar Gústavsson, fyrrverandi forstöðumaður markaðsskrifstofu Ferðamálastofu í N.-Ameríku og fer útför hans fram í dag.

Einar starfaði að íslenskum ferðamálum nánast allan sinn starfsferil. Hann flutti 18 ára gamall til Bandaríkjanna til að vinna fyrir forvera Icelandair en árið 1991 var hann ráðinn forstöðumaður markaðsskrifstofu Ferðamálastofu, sem þá hét Ferðamálaráð Íslands, í New York. Þar stýrði hann málum í yfir 20 ár og átti því drjúgan þátt í að byggja upp þann gríðarmikilvæga markað sem Norður-Ameríka er fyrir íslenska ferðaþjónustu. Auk hins almenna markaðsstarfs stýrði Einar ýmsum sérstökum markaðs- og átaksverkefnum, svo sem Iceland Naturally.

Einar var hugmyndaríkur og öflugur markaðsmaður, fylgdist vel með straumum og stefnum og lagði sig fram um að nýta nýjustu tækni til að ná árangri. Þá má nefna að hann sýndi mikla hugkvæmni í að nýta afþreyingariðnaðinn vestan hafs, svo sem fréttaþætti, kvikmyndir og sjónvarpsþætti, til að koma landinu á framfæri með ýmsum hætti.

Eftirlifandi eiginkona Einars er Gríma Gústavsson. Starfsfólk Ferðamálastofu sendir henni og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.