Fara í efni

Bráðabirgðaniðurstöður ferðaþjónustureikninga 2024

Mynd: ©Íslandsstofa/VisitIceland.com
Mynd: ©Íslandsstofa/VisitIceland.com

Hagstofa Íslands birti í dag bráðabirgðaniðurstöður ferðaþjónustureikninga fyrir árið 2024. Ferðaþjónustureikningar (e. tourism satellite accounts) eru svokallaðir hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar hérlendis.

 

Hærri hluti af vergri landsframleiðslu

Vart þarf að koma á óvart að ferðaþjónusta hélt áfram að gegna lykilhlutverki í þjóðarbúskapnum. Í tilkynningu Hagstofunnar kemur fram að hlutur greinarinnar af vergri landsframleiðslu nam 8,7% á árinu 2024, samanborið við 8,2% árið 2023. Hlutur gistiþjónustu var sem fyrr stærstur og nam um 2,6% af vergri landsframleiðslu. Þrátt fyrir aukningu í hlut ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu hefur framlag greinarinnar til hagvaxtar dregist saman frá fyrra ári.

 

Nærri ein af hverjum tíu vinnustundum

Hagstofan áætlar að um 31,8 milljón vinnustunda árið 2024 megi rekja með beinum hætti til ferðaþjónustu, sem jafngildir um 9,9% heildarvinnustunda hér á landi það árið. Til samanburðar var þetta hlutfall um 10,1% árið 2023. Gistiþjónusta vó sem áður þyngst í fjölda vinnustunda og var hlutur hennar í heildarvinnustundum um 3,2%.

 

Neysla og útgjöld

Árið 2024 nam heildarneysla ferðamanna á Íslandi, bæði erlendra og innlendra, tæpum 870 milljörðum króna og jókst um 6,4% frá fyrra ári. Útgjöld ferðamanna eru reiknuð sem heildarneysla að frádreginni reiknaðri húsaleigu og útgjöldum vinnuveitenda. Útgjöldin 2024 námu rúmlega 840 milljörðum króna, sem er aukning um 7,9% frá fyrra ári. Að teknu tilliti til verðlagshækkana, þ.e. mælt á föstu verðlagi, jukust útgjöldin um 2,8%.

Sé litið til útgjalda erlendra ferðamanna sérstaklega þá námu þau 519 milljörðum króna árið 2024, jukust um 4,2% á milli ára í krónum talið en drógust saman um 0,5% að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.

Útgjöld innlendra ferðamanna námu rúmlega 321 milljarði króna árið 2024, jukust því um 14,5% frá fyrra ári en 8,6% á föstu verðlagi. Þess má geta að breytingar hafa verið gerðar á aðferðafræðinni sem notuð er til að meta útgjöld innlendra ferðamanna á Íslandi.

 

Niðurstöður á föstu verðlagi

Hagstofan birtir með Ferðaþjónustureikningum nýja töflu sem inniheldur helstu niðurstöður ferðaþjónustureikninga á föstu verðlagi. Þar má finna útgjöld ferðamanna og vinnsluvirði ferðaþjónustunnar á föstu verðlagi (miðað við árið 2020), framleiðni vinnuafls í ferðaþjónustunni og framlag ferðaþjónustunnar til hagvaxtar.

 

Nánar

Ferðaþjónustureikningar á vef Hagstofunnar