Auglýst eftir umsóknum til að vinna þrjú rannsóknarverkefni

Auglýst eftir umsóknum til að vinna þrjú rannsóknarverkefni
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Ferðamálastofa óskar eftir umsóknum til að vinna þrjú rannsóknarverkefni. Um er að ræða spennandi tækifæri fyrir rannsóknaraðila á krefjandi tímum í ferðaþjónustu. Verkefnin eru aðskilin þannig að óskað er eftir sérstöku tilboði í hvert og eitt þeirra. Umsóknarfrestur er til 28. september næstkomandi.

Verkefnin þrjú eru:

1. Aðlögunarhæfni og seigla (e. „resilience“) í ferðaþjónustu: Hvernig á að mæta áföllum? Hvernig unnt er að efla þrautseigju í greininni

Reynslan sýnir að ferðaþjónusta getur verið sveiflukenndur atvinnuvegur. Það er ekki aðeins að grunneftirspurnin geti verið breytileg heldur geta náttúruhamfarir eins og eldgos, innlendar efnahagsaðstæður eins og gengi krónunnar, kjarasamningar og verkföll og heimsfaraldrar eins og Covid-19 valdið verulegum sveiflum í bæði umsvifum í greininni og afkomu. Það er því rík ástæða til að hugleiða hvernig ferðaþjónustan getur mætt þessum breytileika og staðið erfið tímabil af sér.

Rannsóknarverkefni þetta snýst um að bera kennsl á helstu áhættuþættina, greina hvernig áhrif þeirra geta hríslast um ferðaþjónustuna og leggja mat á þær búsifjar sem geta orðið bæði til skamms og langs tíma. Skýrgreina síðan leiðir til að draga úr tjóninu og útfæra nánar þær leiðir sem hagkvæmastar virðast. Ferðamálastofa telur að þetta verkefni krefjist skilnings á gerð ferðaþjónustunnar, eðli eftirspurnar eftir ferðaþjónustu, markaðslægu og efnahagslegu samhengi, áhættu, hagkvæmum áhættuviðbrögðum og skynsamlegri sveiflujöfnun. Verkefnið krefst því samþættingar sérfræði á nokkrum mismunandi sviðum.

Nánari upplýsingar í pdf-skjali

 

2. Spár um umsvif í ferðaþjónustu

Um er að ræða fyrsta áfangann í viðameiri spágerð fyrir ferðaþjónustu. Þessi fyrsti áfangi lýtur að gerð spáa fyrir greinina í heild eftir lykilstærðum, þ.e. (i) fjölda erlendra ferðamanna til landsins, (ii) meðaldvalartíma þeirra á landinu, (iii) meðaleyðslu, (iv) fjölda gistinátta. Síðari áfangar spágerðarinnar gera ráð fyrir meiri sundurliðun spáa, þ.á m. eftir landshlutum og eftir þjóðernum ferðamanna. 

Fyrsti þáttur þessa verkefnis felst í að byggja upp spákerfi fyrir ofangreindar lykilstærðir. Þessi þáttur verkefnisins felur í sér gagnaöflun, þróun og mat spálíkana og gerð spáreikningskerfis. Spátíðni skal vera jafnmikil og gögn leyfa, t.d. mánaðarleg fyrir fjölda ferðamanna, annars ársfjórðungsleg eða árleg eftir atvikum og ná allt að þrjú ár fram tímann. Gera skal ýtarlega grein fyrir hagfræðilegum og tölfræðilegum forsendum matsins og tölfræðilegum eiginleikum matsniðurstaðna. Til þessa verks þarf fullnægjandi hagræna og tölfræðilega sérfræði. Gert er ráð fyrir að þessum þætti verkefnisins sé unnt að ljúka á einu til tveimur árum.

Nánari upplýsingar í pdf-skjali

 

3. Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustu: Tæki til högg- og aðgerðagreininga og hagspáa

Verkefnið snýst um að gera sérstakt þjóðhagslíkan (geiralíkan) fyrir ferðaþjónustu á Íslandi sem tengt er inn í fyrirliggjandi þjóðhagslíkön (Seðlabankans/ Hagstofunnar) fyrir hagkerfið í heild. Líkan þetta á að hafa alla venjulega getu þjóðhagslíkana, þ.á.m. til að:

  • Meta áhrif ferðaþjónustunnar á efnahagslífið í heild (þ.e. þjóðhagsstærðir eins og VLF og atvinnustig).
  • Meta áhrif annarra þátta efnahagslífsins (eins og t.d. gengis, verðlags atvinnustigs og skatta) á ferðaþjónustuna.
  • Rekja þjóðhagsleg áhrif breytinga í aðstæðum ferðaþjónustunnar (t.d. högga eins og COVID-19, brottfalls flugfélaga eða ávinnings eins og opnunar stórra flugleiða) á ferðaþjónustuna og efnahagslífið í heild.
  • Rekja áhrif opinberra aðgerða (t.d. uppbyggingar innviða, nýrra gjalda, auglýsingaherferðar o.s.frv.) á ferðaþjónustu og efnahagslífið í heild þannig að unnt sé að velja þær opinberu aðgerðir sem líklegastar eru til að ná þeim markmiðum um ferðaþjónustu sem að er stefnt.
  • Spá fyrir um framlag ferðaþjónustunnar til efnahagslífsins og hagvaxtar í framtíðinni á grundvelli spáa um umsvif í ferðaþjónustu (fjölda ferðamanna o.s.frv.)

Nánari upplýsingar í pdf-skjali

 

Fyrirspurnir og umsóknarfrestur:

Fyrirspurnir og umsóknir skal senda á netfangið johann@ferdamalastofa.is fyrir kl. 16.00 mánudaginn 28. september næstkomandi.

 

 

 


Athugasemdir