Áfangastaðaáætlun Reykjaness birt

 

Áfangastaðaáætlun Reykjaness hefur nú verið birt. Í áætluninni eru lögð drög að frekari þróun í ferðamálum á svæðinu en áætlunin er sú fyrsta sem sérstaklega hefur verið unnin fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Áætlunina má lesa hér.

Fjölmörg tækifæri

Í áætluninni kemur meðal annars fram að ferðaþjónusta er stærsti atvinnuveitandi á Reykjanesi með um 26% starfa á svæðinu. Með hliðsjón af staðsetningu svæðisins er ljós að þar eru mikil tækifæri til uppbyggingar. Svæðið er í nágrenni við Keflavíkurflugvöll, Reykjavík og vinsæla ferðamannastaði á Suðurlandi. Það eru því tækifæri til að tengja svæðið betur þeim stöðum og markaðssetja Reykjanes sem úthverfi höfuðborgarinnar.

Tilgangur með Áfangastaðaáætlun Reykjaness er að skerpa á hlutverki og ábyrgð þeirra sem koma að ferðamálum á svæðinu auk þess sem henni er ætlað að vera verkfæri til að fylgja eftir stefnumótun fyrir áfangastaðinn og móta stefnu um markaðssetningu, uppbyggingu áningastaða, útivist, vöruþróun, fræðslu, aðra starfsemi og verndun.

Samstarf við sveitarfélög og hagaðila

Áfangastaðaáætlun Reykjaness nær yfir sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum. Við gerð áætlunarinnar var unnið út frá þeim áætlunum og stefnum sem fyrir liggja hjá sveitarfélögunum og sameiginlegum verkefnum svæðisins. Áætlunin var einnig unnin í samstarfi við Reykjaness Geopark og hagaðila á svæðinu. 

Nánari upplýsingar um Áfangastaðaáætlun Reykjaness veitir Þuríður H. Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness.

 


Athugasemdir