Fara í efni

Bleikmerktur Fokker gegn brjóstakrabba

Bleikur Fokker
Bleikur Fokker

Væntanlega munu farþegar í innanlandsflugi næstu mánuði veita athygli bleikmerktri Fokkar 50 vél Flugfélags Íslands. Um er að ræða lið í söfnunarátakinu ?Á allra vörum? til kaupa á nýjum stafrænum röntgenbúnaði sem greinir brjóstakrabbamein.

Í fréttatilkynningu kemur fram að þetta er í fyrsta sinn sem flugvél í áætlunarflugi hér á landi fær slíka sérmerkingu til styrktar góðu málefni. Nýr tækjabúnaður Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins eykur möguleika á að greina krabbamein í brjóstum á frumstigi en góður árangur í meðferð þess ræðst ekki síst af því að það greinist sem allra fyrst. Auk tækjakaupanna er markmið átaksins að leggja Krabbameinsfélaginu lið við að koma nýjum tækjum sem fyrst í gagnið og útbúa kynningarefni um brjóstakrabbamein. Þá má geta þess að einnig hefur verið gert sérstakt bleikt varalitagloss sem verður til sölu næstu þrjá mánuði um borð í flugvélum Icelandair og í fríhafnarverslunum Flugfélags Íslands í Reykjavík og á Akureyri.

Á myndinni eru Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, og Sigríður Snæbjörnsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Íslands, við flugvélina sem merkt er átakinu.?