Bjartsýni hjá All Senses á Vesturlandi

Bjartsýni hjá All Senses á Vesturlandi
Hraunfossar

Mikil bjartsýni ríkti meðal All Senses hópsins á vinnufundi sem haldinn var á Hótel Hamri í vikunni. Í hópnum eru um 30 fulltrúar  fyrirtækja sem allir starfa við heilsárs ferðaþjónustu á Vesturlandi. Þrátt fyrir óvissu og aðsteðjandi erfiðleika telur hópurinn að við þessar aðstæður skapist áhugaverð og spennandi tækifæri sem mikilvægt er að vinna saman að.

"Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem nýtir hvað best auðlindir þessa lands, náttúru, menningu og mannauð sem erfitt er að verðfella og ekki hægt að flytja úr landi. Hún nær til allra landshluta og er því raunhæfasti kosturinn sem völ er á til að renna stoðum undir búsetu í hinum deifðari byggðum. Ferðaþjónusta aflar umtalsverðra gjaldeyristekna og skapar fjölda starfa sem byggja á þekkingu og reynslu vel menntaðra einstaklinga," segir í frétt fram samtökunum.

Hópurinn skorar á stjórnvöld að nýta stöðuna til að byggja upp og fjárfesta í innviðum ferðþjónustunnar og marka sér skýra stefnu um áherslur og framkvæmdir sem tryggja arðsemi fjárfesta í þessari mikilvægu grein. Þá stefnumótun þarf að vinna í náinni samvinnu við þá sem starfa í greininni og hafa þekkingu og reynslu í faginu.

All Senses vill hvetja landsmenn til að líta sér nær og skoða hvað landið hefur að bjóða. Við  viljum vinna saman að velferð okkar allra, tækinfærin eru næg. Kl. 20:00 þann 1. nóvember slökkvum við á Vesturlandi rafljósin um stund og kveikjum á kertum. Það er ljós í myrkrinu.


Athugasemdir