Fara í efni

Bjarnarfoss hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðmálastofu árið 2018

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, og Margrét Björk Björnsdóttir verkefnastjóri, veittu ve…
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, og Margrét Björk Björnsdóttir verkefnastjóri, veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd Snæfellsbæjar og eru hér með Skarphéðni Berg Steinarssyni ferðamálastjóra.

Verkefnið „Bjarnarfoss í Staðarsveit – aðgengi fyrir alla allt árið“ hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálstofu árið 2018. Verðlaunin voru afhent í dag.

Verkið var unnið á árunum 2015 - 2016 og er gott dæmi um hvernig heimafólk og sveitarfélag, með liðsinni Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, hafa unnið faglega að uppbyggingu áningarstaðar þar sem allir geta notið fallegrar náttúru. Staðurinn er nú aðgengilegur allt árið.

Tignarlegur foss við þjóðveginn

Bjarnarfoss er tignarlegur foss sem fellur fram af hamrabrúninni upp af Búðum á Snæfellsnesi. Fossinn, ásamt stuðlabergshömrum beggja vegna og gróskumiklum brekkum neðan þeirra, er á náttúruverndarskrá Vesturlands. Fossinn blasir við vegfarendum sem fara um þjóðveginn á sunnanverðu Snæfellsnesi og því ekki að undra að hann hafi dregið til sín ferðafólk í auknu mæli.

Fallegur áningarstaður fyrir alla til að njóta

Snæfellsbær sótti um í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og fékk 10 milljóna króna styrk til að gera göngustíg, göngubrú, áningarstað, bílastæði og skilti. Áður hafði sveitarfélagið fengið tæpa hálfa milljón til hönnunarvinnu. Markmið styrkveitinganna var að vernda viðkvæma náttúru og bæta aðgengi ferðamanna að fossinum. 

Hugað að náttúrunni og að verkefnið falli vel að landi

Göngustígurinn er lagður þannig að hann liðast eftir landinu. Notast var við svokallaðar eco-grindur sem eru lagðar í yfirborð stígsins og þær síðan fylltar með ofaníburði, þannig að auðveldara væri að fara um stíginn t.d. á hjólastól eða með barnakerru. Göngubrúin yfir gilið neðan við fossinn er gerð úr viðardrumbum og fellur vel inn í landslagið. Áningarstaðirnir eru síðan teknir út úr stígnum eftir legu landsins en þeir eru lagðir með náttúruhellum. Þar er einnig að finna áningarborð. Gott bílastæði er við upphaf stígsins og gamla brúin við veginn var endurgerð samkvæmt upprunalegum teikningum frá árinu 1949.

Umhverfisverðlaun veitt frá árinu 1995

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því í 24. sinn sem þau eru afhent. Verðlaunin eru nú í þriðja sinn veitt fyrir verkefni sem hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða á tímabilinu 2014-2016 og voru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi umhverfistefnu Ferðamálstofu og áherslur Framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulags.

umhverfisverðlaun 2018

Það var glatt á hjalla við Bjarnarfoss í dag þegar verðlaunin voru afhent.


 

Um verðlaunagripinn

Verðlaunagripurinn ber heitið ,,Sjónarhóll“ og eru höfundar hans Jón Helgi Hólmgeirsson og Védís Pálsdóttir. Hugmyndin bakvið gripinn er hvernig hægt er að upplifa náttúruna frá mismunandi sjónarhornum og þá einstöku upplifun hvers og eins að nálgast áfangastað.
Látúnstangir mynda þrívíðan hól úr uppréttum hæðarlínum. Línuteikningar bæta við hólinn hlíðum og árfarvegum. Hóllinn varpast í speglum sem myndar nýjar víddir eftir því hvaðan á er litið. Sjónarhóll er í senn náttúran, samspilið við hið manngerða og sjónarhornið sem upphefur upplifunina.