Fara í efni

Birting í Mælaborðinu auðveldar ákvarðanir og styttir viðbragðstíma

Frá undirritun samningsins. Óskar Jósefsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar Ferðamála; Þórður H. Óla…
Frá undirritun samningsins. Óskar Jósefsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar Ferðamála; Þórður H. Ólafsson framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.

Gögn um fjölda gesta á 46 stöðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs munu innan tíðar verða aðgengileg í Mælaborði ferðaþjónustunnar. Samningur þar að lútandi var undirritaður á dögunum á milli Ferðamálastofu, Stjórnstöðvar ferðamála og þjóðgarðsins. Tilgangur samstarfsins er að auðvelda rafræna miðlun upplýsinga um Vatnajökulsþjóðgarð en hin myndræna birting í Mælaborðinu auðveldar rekstraraðilum þjóðgarðsins sem og öðrum hagsmunaaðilum að gera sér grein fyrir álagi af umferð um svæði innan þjóðgarðsins.

Stöðugt flæði upplýsinga opnar nýja möguleika

Markmið með samstarfinu er að nota upplýsingarnar til að auðvelda ákvarðanatöku um uppbyggingu svæða, viðhald á svæðum og mannaflaþörf. Einnig segja þær til um ferðahegðun ferðamanna innan þjóðgarðsins. Stöðugt flæði upplýsinga gefur rekstraraðilum og umsjónaraðilum möguleika á að bregðast fyrr við, hvað varðar ákvarðanatöku.

Aðgengileg innan tíðar

Gögnin ná aftur til ársins 2009 en Vatnajökulsþjóðgarður hefur í samstarfi við Rögnvald Ólafsson og Gyðu Þórhallsdóttir staðið fyrir þessum talningum í samræmi við aðferðafræði sem þau hafa þróað. Sem fyrr segir er um að ræða teljara á 46 stöðum, þar af 10 handteljara. Verið er að vinna úr gögnunum fyrir birtingu í Mælaborðinu og standa vonir til að þau verði orðin aðgengileg eftir nokkrar vikur.