Fara í efni

Bílaleiga Akureyrar- Höldur fékk umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Jón Gestur Ólafsson tekur við verðlaununum úr hendi ráðherra.
Jón Gestur Ólafsson tekur við verðlaununum úr hendi ráðherra.

Bílaleiga Akureyrar- Höldur fékk í dag umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2013. Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, afhenti verðlaunin í lok fjölsótts málþings um sjálfbærni, á Hótel Natura.

Umhverfismálin óvíða í meiri forgrunni

„Ábyrg afstaða til umhverfismála og samþætting þeirra við aðra þætti í rekstri fyrirtækja skipta æ meira máli. Óvíða í atvinnulífinu eru umhverfismálin líka í meiri forgrunni en einmitt í ferðaþjónustunni. Við vitum öll að náttúran er ein helsta auðlind atvinnugreinarinnar og til að svo megi áfram verða um ókomna framtíð verðum við að umgangast þetta fjöregg okkar af nærgætni og virðingu. Allar athafnir okkar mannanna hafa árif á umhverfið með einum og öðrum hætti. Við verðum þannig að leitast við að umgangast náttúru landsins af auðmýkt og á sjálfbæran hátt,“ sagði Ragnheiður Elín meðal annars í ávarpi sínu.

Í fararbroddi í umhverfismálum

Bílaleiga Akureyrar - Höldur ehf. er í dag stærsta bílaleiga landsins með um 3000 bíla í rekstri. Fyrirtækið hefur lengi verið í fararbroddi í umhverfismálum bílaleigufyrirtækja hérlendis og hefur fyrst þeirra fengið umhverfisstjórnunarkerfi sitt vottað skv. staðlinum ISO 14001. Þá er bílaleigan með gullmerki í umhverfiskerfi Vakans.

Græn akstursráð

Umhverfisáherslan er mjög sýnileg á heimasíðu fyrirtækisins og þar er m.a. að finna „græn akstursráð“. Einnig er umhverfisskýrsla birt árlega. Þar má finna upplýsingar um helstu umhverfisþætti í starfseminni og hvernig frammistaðan hefur breyst milli ára.

Minni kolefnislosun

Ekki verður annað séð en að markmiðum fyrirtækisins í umhverfismálum sé vel fylgt eftir. Þannig hefur meðallosun CO2 frá bifreiðum fyrirtækisins farið lækkandi umfram væntingar. Hjá Bílaleigu Akureyrar er m.a. hægt að leigja metanbíla og einn rafbíl.

Hægt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum

„Þannig er það mat dómnefndar að bílaleigan uppfylli með prýði öll þau viðmið sem gera fyrirtæki verðug þess að hljóta umhverfisverðlaun Ferðamálastofu. Bílaleiga Akureyrar er vel að þeim verðlaunum komin, enda augljóslega í fararbroddi hérlendis í grein þar sem hægt er að draga verulega úr neikvæðum umhverfisáhrifum með markvissu starfi,“ segir m.a. í rökstuðningi dómnefndar.

Afhending umhverfisverðlauna

Frá afhendingunni í dag. Talið frá vinstri: Elías Bj. Gíslason, settur ferðamálastjóri; Steingrímur Birgisson og Bergþór Karlsson frá Bílaleigu Akureyrar; Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála; Jón Gestur Ólafsson, Bílaleigu Akureyrar og Björn Jóhannsson, umhverfisstjóri Ferðamálastofu.

Um umhverfisverðlaunin

Eitt af hlutverkum Ferðamálastofu er að hvetja einstaklinga og fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar til ábyrgðar í umhverfismálum. Liður í þessari viðleitni er að Ferðamálastofa veitir umhverfisverðlaun til ferðaþjónustufyrirtækja eða einstaklinga í ferðaþjónustu sem þótt hafa skara framúr á sviði umhverfismála. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því 19. árið í röð sem verðlaunin eru veitt.

Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst.