Fara í efni

Blaðamenn ferðatímarita funda í Reykjavík

Reykjavíkurtjörn. Mynd: arctic-images.com
Reykjavíkurtjörn. Mynd: arctic-images.com

Samtök bandarískra blaðamanna sem sérhæfa sig í skrifum fyrir ferðablöð og tímarit (SATW) hafa staðfest við Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík) að árleg ráðstefna þeirra verið haldin hér á landi í lok september á næsta ári.

Búist er við um 350 ráðstefnugestum sem ætla jafnframt að ferðast um landið og safna áhugaverðu efni til að birta greinar og ljósmyndir í virtum ferða- og lífsstílsblöðum um allan heim, segir í fréttatilkynningu.

„Ráðstefnugestir gerast ekki mikið verðmætari, því efni frá þessu fólki er birt í þúsundum fjölmiðla og bloggsíðna á mörgum mikilvægustu markaðssvæðum Íslands,“ segir Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík).

Ráðstefnur SATW eru haldnar árlega víða um heim. Síðast var ráðstefnan haldin í Indianapolis, Indiana og 2011 á Nýja Sjálandi, en í ár verður hún við Mexíkóflóa í Biloxi, Mississippi. Búast má við að beinar tekjur af ráðstefnunni hér á landi verði um 150 milljónir króna. Því til viðbótar er gert ráð fyrir að langflestir gestanna á ráðstefnu SATW skrifi um Ísland eða selji ljósmyndir héðan, sérstaklega í ljósi þess að fæstir þeirra hafa komið hingað áður. Verðmæti birtinga í fjölmiðlum í tengslum við ráðstefnuna er áætlað 300-750 milljónir króna ef miðað er við reynsluna frá Nýja Sjálandi og heildarverðmæti ráðstefnunnar því á bilinu 450-900 milljónir króna. Leiða má líkur að því að verðmæti hvers ráðstefnugests gæti verið frá 1,3 til 2,6 milljónir króna.

Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík) hefur unnið jafnt og þétt að því síðan í byrjun janúar að tryggja að ráðstefna SATW verði haldin hér á landi á næsta ári. Undir lokin stóð slagurinn á milli Íslands, Mið-Austurlanda og Bandaríkjanna. Annette Thompson, stjórnarmaður í SATW, sem leiddi samningaviðræðurnar fyrir hönd SATW, segir að þau hafi fljótt hrifist af þeim krafti og smitandi áhuga sem Meet in Reykjavík og samstarfsaðilar sýndu. Að sama skapi hafi Ísland uppfyllt allar þeirra væntingar sem áfangastaður og skarað framúr í samanburðinum sem skiptir miklu máli til að fá sem flesta gesti á ráðstefnuna.

„Í okkar huga er Ísland spennandi og mjög sérstakur áfangastaður en um leið öruggur. Félagar í SATW vilja gjarnan nota árlegu ráðstefnuna til að hittast á nýjum slóðum og blanda þannig saman félagsstörfum og vinnu. Við teljum okkur eiga framúrskarandi möguleika á að skapa afar áhugaverðar ferðasögur og ljósmyndir frá Íslandi. Það skiptir líka máli að Ísland er hagstætt og aðgengilegt fyrir ferðamenn frá Norður-Ameríku og tekur vel á móti enskumælandi ferðamönnum sem er stærstur hluti lesendahóps okkar“.

Dagana fyrir og eftir ráðstefnuna munu ráðstefnugestir ferðast um allt land og koma víða við. Unnið hefur verið með markaðsskrifstofum landshlutanna, Íslandsstofu og fleirum að þeirri kynningu og er breið samstaða um að gestirnir fái að kynnast sem flestum áhugaverðum áfangastöðum um allt land á meðan á dvöl þeirra stendur. Þess má geta að dagana áður en ráðstefnan hefst mun stjórn SATW halda stjórnarfund sinn á Akureyri.

Meet in Reykjavík vann að tilboðsgerð fyrir ráðstefnu SATW í nánu samstarfi við Iceland Travel, sem er eitt af aðildarfélögum þess. Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík) var stofnsett árið 2012 og er verkefni þess að vera samstarfsvettvangur um markaðssetningu á Reykjavík sem alþjóðlegri funda-, hvataferða og ráðstefnuborg. Kjölfestuaðilar eru Reykjavíkurborg, Icelandair Group og Harpa ásamt fjölda annarra aðildarfélaga sem telur helstu hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og þá sérstaklega tengdir funda-, hvata- og ráðstefnumarkaði.