Fara í efni

Bætt aðstaða fyrir ferðamenn við Arnarstapa

Aðalfundur Ferðamálráðs Vestnorden haldinn í síðustu viku
Aðalfundur Ferðamálráðs Vestnorden haldinn í síðustu viku

Ný hafnarmannvirki voru tekin í notkun á Arnarstapa á Snæfellsnesi síðastliðinn laugardag eftir gagngerar breytingar. Auk endurbóta á sjálfri höfninni er búið að stórbæta aðgengi ferðafólks sem kemur til að skoða náttúrufegurð hafnarinnar og umhverfis.

Mikil náttúrufegurð
Bætt aðgengi ferðamanna felst í tveimur útsýnispöllum sem settir voru upp í samráði við Ferðamálaráð. Aðgengi er fyrir fatlaða að öðrum pallinum. Arnarsapi er meðal fjölsóttustu ferðamannastaða á Snæfellsnesi en er þar mikil er náttúrufegurð og einhver áhugaverðasta strönd á öllu Snæfellsnesi. Mikið er um gjár, skúta og hamra sem ganga í sjó fram og sérkennilega stapa úr stuðlabergi sem standa einir og óstuddir við ströndina. Vinsæl gönguleið, u.þ.b. 3 km, er með ströndinni á milli Arnarstapa og Hellna. Þá liggur leið frá Arnarstapa yfir Jökulháls til Ólafsvíkur og af hálsinum er algengasta leið þeirra sem fara á Snæfellsjökul.

Fjölmenni var viðstatt vígsluathöfnina á laugardaginn. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra klippti á borða til að opna höfnina formlega en honum til aðstoðar voru þeir Björn Arnaldsson, hafnarstjóri Snæfellsbæjar, og Þórður Stefánsson, formaður hafnarmálanefndar.