Fara í efni

Aukinn áhugi en jafnframt meiri væntingar

Almannatengslafyrirtækið CiB pr, sem Ferðamálaráðs Íslands skiptir við í Bretlandi, býður árlega viðskiptavinum sínum og blaðamönnum til móttöku, svokallað "Press Night". Móttakan var að þessu sinni haldin sl. þriðjudagskvöld og segir Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálaráðs á Bretlandsmarkaði, greinilegt á öllu að Ísland vekur stöðugt meiri athygli þar um slóðir.

Ísland færst ofar í virðingarstiganum
Móttakan, sem haldin var í Simpson house á Piccadilly, var mjög vel heppnuð. Þangað mættu 65 blaðamenn, þar á meðal margir svokallaðir "travel editors" frá stóru fjölmiðlunum sem gera ferðamálum sérstök skil. Þetta segir Sigrún ótvírætt merki þess að Ísland sé að færast ofar í virðingarstiganum hjá þessum fjölmiðlum, ef svo má að orði komast.

Skapar meiri væntingar til landsins
"Það er greinilegt að the Guardian Travel Award verðlaunin sem við hlutum á dögunum hafa ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með því sem er að gerast í ferðageiranum. Jafnframt er ljóst að í kjölfarið verða væntingarnar til landsins meiri. Það voru fjölmargir sem lýstu áhuga sínum á að koma til landsins í náinni framtíð. Eitt vakti einnig athygli mína en það var nokkur umræða um hvað við erum að gera í vistvænni orku og fólk vildi vita meira um ökutækin knúin henni sem eru komin í gagnið. Enginn minntist hins vegar á hvort við ætluðum að hefja hvalveiðar á nýjan leik. Stóra spurningin eins og alltaf hjá fjölmiðlafólki er "what's new in Iceland" og nú verðum við sem aldrei fyrr að gæta þess að standa undir þeim væntingum sem til okkar eru gerðar," segir Sigrún. Við þetta má svo bæta að tölur um fjölda ferðamanna hingað til lands sýna verulega fjölgun frá Bretlandi.