Aukin þjónusta við umsækjendur leyfa

Hverfjall vetur
Ferðamálastofa getur nú boðið umsækjendum um ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfi meiri þjónustu sem einfaldar mjög ferlið fyrir umsækjendur. Auk þess að umsóknin sjálf er nú að fullu rafræn þá getur Ferðamálastofa séð um að afla flestra þeirra vottorða sem skila þarf með, sem sannarlega sparar umsækjendum sporin.

Þau fylgigögn sem senda þarf með leyfisumsókn eru eftirfarandi:

1. Skráningarvottorð úr fyrirtækjaskrá (hf. og ehf.) eða firmaskrá (sameignarfélag, samlagsfélag eða einkafirma)
2. Vottorð um skráningu hjáheitis úr fyrirtækjaskrá eða firmaskrá (ef við á).
3. Búsetuvottorð frá Þjóðskrá Íslands eða íbúaskrá í viðkomandi sveitarfélagi
4. Sakavottorð frá sýslumanni
5. Staðfesting um búsforræði forsvarsmanns frá viðkomandi héraðsdómi
6. Staðfesting um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi

Af þessu eru það eingöngu vottorð um hjáheiti og sakavottorð sem umsækjandi þarf sjálfur að útvega en önnur vottorð getur Ferðamalastofa, að fenginni heimild umsækjenda, séð um að afla. Bætist þá 3.000 kr. við leyfisgjaldið.

Sótt um í gegnum Þjónustugátt

Allar umsóknir fara nú í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu. Þar byrja umsækjendur á að skrá sig inn með öruggum hætti, annað hvort með íslykli eða rafrænum skilríkjum, og fá þá úthlutað „sínu svæði“ í þjónustugáttinni þar sem hægt er að fylgjast með framgangi umsóknarinnar.

 


Athugasemdir