Fara í efni

Ástand friðlýstra svæða

Geysir
Geysir

Umhverfisstofnun hefur að beiðni umhverfisráðuneytis tekið saman lista yfir þau svæði sem að mati stofnunarinnar þurfa sérstakrar athygli við og að hlúa þurfi sérstaklega að. Svæðin flokkast á rauðan lista annars vegar en þar eru þau svæði sem Umhverfisstofnun telur að séu undir miklu álagi sem bregðast þurfi við strax, og á appelsínugulan lista hins vegar sem eru þau svæði sem stofnunin telur að séu undir töluverðu álagi sem einnig þurfi að fylgjast vel með og bregðast við á ýmsan hátt.

Í frétt á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að friðlýst svæði á Íslandi eru 102 talsins en umfang þeirra, eðli og ástand er afar misjafnt. Umhverfisstofnun hefur nú umsjón með 62 svæðum ef ekki eru með taldir fólkvangar eða önnur verndarsvæði sem eru í umsjón sveitarfélaga eða lögaðila. Ástæða fyrir friðlýsingu þessara svæða, og þannig verndargildi þeirra, er af ýmsum toga. Svæði kunna að hafa verið friðlýst vegna náttúrufars, landslags, jarðminja, útivistar eða samblands framangreindra þátta. Margir þættir geta haft neikvæð áhrif á verndargildi friðlýstra svæða þó að áhrif mannlegra umsvifa séu hvað mest. Friðlýst svæði eru oft vinsælir áfangastaðir ferðamanna.

Sem fyrr segir flokkast svæðin á rauðan lista annars vegar en þar eru þau svæði sem Umhverfisstofnun telur að séu undir miklu álagi sem bregðast þurfi við strax, og á appelsínugulan lista hins vegar sem eru þau svæði sem stofnunin telur að séu undir töluverðu álagi sem einnig þurfi að fylgjast vel með og bregðast við á ýmsan hátt.

Listarnir eru birtir hér að neðan en nánari upplýsingar um hvert svæði fyrir sig er að finna í skýrslunni: Ástand friðlýstra svæða - skýrsla til umhverfisráðuneytisins. (PDF)

Rauði listinn

  • Dyrhólaey
  • Friðland að Fjallabaki
  • Grábrókargígar
  • Gullfoss og Geysir
  • Helgustaðanáma
  • Hveravellir
  • Reykjanesfólkvangur
  • Surtarbrandsgil
  • Teigarhorn

Appelsínuguli listinn

  • Dynjandi
  • Eldborg í Bláfjöllum
  • Fossvogsbakkar
  • Geitland
  • Hraunfossar
  • Kringilsárrani
  • Laugarás
  • Mývatn/Laxá

Nánar á vef Umhverfsstofnunar