Árni Gunnarsson endurkjörinn formaður SAF

Árni Gunnarsson endurkjörinn formaður SAF
Árni Gunnarsson

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar var haldinn  á Hilton Reykjavík Nordica í gær en um 250 manns sóttu fundinn.  Aðalumræðuefni fundarins var hvernig má auka tekjur ferðaþjónustunnar og hvort þolmörkum yfir sumartímann sé náð.  Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa funduðu faghópar samtakanna um sín hagsmunamál og haldin voru fróðleg erindi.

Árni Gunnarsson (sjá mynd), framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, var endurkjörinn formaður samtakanna. Með honum í stjórn voru kjörin:

Bergþór Karlsson, Höldur/Bílaleiga Akureyrar
Elín Árnadóttir, Isavia ohf.
Ingibjörg G. Guðjónsdóttir, Íslenskir fjallaleiðsögumenn
Ingólfur Haraldsson, Hilton Reykjavík Nordica
Rannveig Grétarsdóttir, Elding Hvalaskoðun 
Þórir Garðarsson, Iceland Excursions


Ályktanir aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar

  • Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í dag, leggur áherslu á að ferðaþjónustan styrki enn stöðu sína sem ein af þremur stoðum í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar og nú með auknum ferðamannastraumi yfir vetrartímann.
  • Í ályktun aðalfundar er fagnað markverðum árangri þeirra markaðsherferða sem fyrirtækin í ferðaþjónustunni og opinberir aðilar hafa sameinast um s.s. Inspired by Iceland 2010 og ÍSLAND ALLT ÁRIÐ sem hófst á haustdögum 2011.  Ljóst sé þó að nauðsynlegt sé að styrkja innviði og stoðkerfi greinarinnar á sama tíma og er þá helst horft til samgöngumála og eflingu rannsókna í greininni.
  • Aðalfundurinn kallar eftir aðgerðum gegn svartri atvinnustarfsemi: „Kallað er eftir meiri aga í stjórnsýslunni.  Samtökin hafa á starfsárinu sýnt fram á gríðarlegt framboð af leyfislausum fyrirtækjum sem stjórnsýslan virðist annaðhvort áhugalaus um eða vanhæf að fylgja eigin lögum og reglum.  Athafnaleysi stjórnvalda í þeim málum hvetur til svartrar atvinnustarfsemi sem samtökin fordæma.“
  • Aðalfundur SAF gagnrýnir að nú, þremur og hálfu ári eftir hrun, sé skuldavandi fjölmargra fyrirtækja enn óleystur: „ Það er mikið verk framundan að auka hagvöxt með arðbærum fjárfestingum og auknum atvinnutækifærum en blómlegt atvinnulíf um allt land skiptir ferðaþjónustuna miklu máli. Þá eru samkeppnishæfir vextir og afnám gjaldeyrishafta aðkallandi auk þess sem tryggja þarf að óhóflegir skattar og gjaldtaka opinberra fyrirtækja dragi ekki kraftinn úr fyrirtækjunum.  Atvinnulífið þarf á stöðugleika að halda og hafnar sífelldum breytingum á rekstrarumhverfinu.“
  • Þá ályktar aðalfundur SAF um stækkun friðarsvæða hvalaskoðunar: „Vakin er sérstök athygli á að veiðar á hrefnum undanfarin ár stefna hröðum skrefum í það að eyðileggja hrefnusýningar á Faxaflóa. Allt frá árinu 2003 hafa stjórnvöld hunsað beiðni stjórnar SAF um stækkun friðarsvæða við Ísland.“  Aðalfundurinn skorar á Steingrím J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að að gera gangskör að stækkun friðarsvæða hvalaskoðunar.

Athugasemdir