Fara í efni

Alþjóðlegur viðburður um forystu og stjórnun í sjálfbærri ferðaþjónustu haldinn á Akureyri

Menningarhúsið Hof Akureyri

Dagana 5.-9. október næstkomandi gefst þeim sem tengjast ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti kostur á að taka þátt í alþjóðlegum viðburði á Akureyri sem á íslensku hefur verið nefndur Sumarskóli um forystu og stjórnun í sjálfbærri ferðaþjónustu. Um er að ræða sambland af vinnufundum, fyrirlestrum og vettvangsferðum með þátttöku vitra erlendra og innlendra leiðbeinenda.

Betra skipulag, stjórnun og árangur verkefna

Viðburðurinn er kjörinn vettvangur til að skiptast á hugmyndum og deila reynslu varðandi skipulagningu og fjármögnun verkefna til sjálfbærni, bætta stjórnun og betri árangurs verkefna á sviði ferðaþjónustu. Að skipulagningu og undirbúningi standa Foundation for European Sustainable Tourism, Ferðamálastofa, Ferðamálaráð Evrópu og Markaðsstofa Norðurlands.

Fyrir hverja?

Hugmyndin er að leiða saman alla þá sem koma að ferðaþjónustu og stjórnun verkefna með einum eða öðrum hætti. Er í því sambandi horft til stefnumótandi aðila á landsvísu, einstakra áfangastaða, fulltrúa greinarinnar, aðila úr fræða- og háskólasamfélaginu og þeirra sem styrkja verkefni á sviði sjálfbærrar ferðaþjónustu.

Skólinn er líka tækifæri fyrir þá sem nýta sér PM4SD™ aðferðafræðina (Project Management for Sustainable Development / Verkefnastjórnun til sjálfbærrar þróunar) til að koma saman og viðhalda þekkingu sinni. Nánari upplýsingar um PM4SD aðferðafræðina og þjálfun í henni

Árlega í ýmsum Evrópulöndum

Sumarskólinn hefur verið haldinn í hinum ýmsu löndum Evrópu undanfarin fjögur ár. Fyrsti sumarskólinn var haldinn í Napólí á Ítalíu 2013, árið 2014 var skólinn í Seinäjoki í Finnlandi og þriðji skólinn var í Vitoria-Gasteiz á Spáni 2015. Skólinn á Akureyri verður því sá 4. í röðinni.

Sumarskólinn haustið 2016 hefur sérstaka þýðingu sem upptaktur að alþjóðlegu ári sjálfbærrar ferðaþjónustu 2017 en Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða ferðamálaráðið (UNWTO) samþykktu í desember 2015 að tileinka árið 2017 sjálfbærri ferðaþjónustu í þágu þróunar.

Metnaðarfull dagskrá

Hér er á ferðinni alþjóðlegur viðburður þar sem vænta má þátttöku lykilpersóna á sviði ferðaþjónustu hvaðanæva úr heiminum, jafnt úr röðum fræðimanna, rekstraraðila og stjórnmála. Skólinn er opinn öllum sem áhuga hafa. Nánari upplýsingar, skráningu og dagskrá, má nálgast á vefsíðu hans: www.summerschool.festfoundation.eu

Sértilboð á flugi og gistingu

Við bendum sérstaklega á að í gildi er sértilboð bæði á flugi innanlands og gistingu á þremur hótelum á Akureyri. Framboð er takmarkað og því um að gera að bregðast við sem fyrst.

Nánari upplýsingar veita Ólöf Ýrr Atladóttir og ferðamálastjóri og Erla Sigurðardóttir verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu