Alþjóðlegar siðareglur fyrir ferðaþjónustu þýddar á íslensku

siðareglur forsíðaFerðamálastofa hefur látið þýða Alþjóðlegar siðareglur fyrir ferðaþjónustu yfir á íslensku. Reglurnar eru hugsaðar sem grunngildi og ætlað er að vera hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu að leiðarljósi. Siðareglurnar höfða til ríkja, sveitarfélaga, samfélaga, ferðaþjónustuaðila og sérfræðinga auk ferðamanna, jafnt innlendra sem erlendra.

Þróaðar með víðtæku alþjólegu samstarfi

Reglunar voru þróaðar á vettvangi ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Alþjóða ferðamálastofnunarinnar (UNWTO), og hafa verið við líði í nokkur ár. Þær eru afrakstur víðtæks samráðs og voru upphaflega samþykktar á aðalfundi UNWTO í október 1999. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi skjalið á fundi sínum 21 desember 2001 og hvatti um leið UNWTO til að fylgja siðareglunum eftir. 

Byggja á alþjóðlegum samþykktum

Reglurnar byggja á, styðjast við og styðja fjölmargar alþjóða samþykktir m.a. á sviði mannréttinda, sjálfbærni, viðskipta og líffræðilegs fjölbreytileika þar á meðal Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Manila yfirlýsinguna.

Verða að formlegum sáttmála

Siðareglurnar í heild eru í 10 greinum og hver grein í nokkrum undirliðum. Þær eru ekki ígildi laga en þó kveður 10. grein á um að hagsmunaaðilum er heimilt að vísa ágreiningi varðandi beitingu eða túlkun á Alþjóðlegum siðareglum ferðaþjónustu til sáttameðferðar hjá óháðum þriðja aðila. Við þetta er því að bæta að aðildarríki UNWTO samþykktu á dögunum að breyta reglunum í alþjóðlega sáttmála, þann fyrsta í sögu samtakanna.

Þátttaka einkageirans

Árið 2011 setti UNWTO fram skjal sem tekur til skuldbindinga aðila einkageirans við Alþjóðalegar siðareglur fyrir ferðaþjónustu. Fyrirtækjum, samtökum og óopinberum stofnunum stendur til boða að undirrita skjalið. Í júní í ár höfðu 521 fyrirtæki og samtök um allan heim undirritað skuldbindingu einkageirans við siðareglurnar. Á ferðamálaþinginu í Hörpu næstkomandi miðvikudag, 4. október, munu Helga Árnadóttir og Ásta Kristín Sigurðardóttir þessa skuldbindingu fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar og Íslenska ferðaklasans.

10 greinar 

Sem fyrr segir eru Alþjóða siðareglur ferðaþjónustu í 10 liðum:

  • 1. grein: Framlag ferðaþjónustunnar til gagnkvæms skilnings og virðingar milli þjóða og samfélaga
  • 2. grein: Ferðaþjónusta sem tæki til að uppfylla þarfir einstaklinga og heildarinnar
  • 3. grein: Ferðaþjónusta sem þáttur í sjálfbærri þróun
  • 4. grein: Ferðaþjónusta, notandi og stoð menningararfs
  • 5. grein: Ferðaþjónusta, ávinningur fyrir þau lönd og samfélög sem sótt eru heim
  • 6. grein: Skyldur hagsmunaaðila í þróun ferðaþjónustu
  • 7. grein: Réttur til ferðaþjónustu
  • 8. grein: Réttur ferðamanna til frjálsra ferða
  • 9. grein: Réttindi starfsmanna og sjálfstætt starfandi aðila í ferðaþjónustu
  • 10. grein: Innleiðing grunnreglnanna í Alþjóðlegum siðareglum ferðaþjónustu

Siðareglurnar í heild:

Alþjóðlegar siðareglur fyrir ferðaþjónustu (PDF)


Athugasemdir