Fara í efni

Alþjóðaferðamálaráðið ræðir áhrif loftlagsbreytinga á ferðaþjónustu

Jöklaferð
Jöklaferð

Alþjóðaferðamálaráðið (UNWTO), sem er ein af alþjóðastofnunum Sameinuðu þjóðanna, heldur sérstakan fund í næstu viku um áhrif loftslagsbreytinga á ferðaþjónustu. Þar verða rædd sérstaklega þau áhrif sem nú þegar eru komin fram og hafa kallað á breytingar í vöruþróun og framboði víða um heim. Einnig verður horft til framtíðar og reynt að sjá hvaða hættur og tækifæri liggja í væntanlegum breytingum varðandi þróun greinarinnar á mismunandi svæðum heimsins.

Þessi mál komu til umræðu á sumarfundi framkvæmdastjórnar ferðamálaráðs Evrópu í júní síðastliðinn en Magnús Oddsson ferðamálastjóri situr í framkvæmdastjórninni sem fulltrúi N- Evrópu. ?Á þeim fundi var m.a. rætt um áhrifin á ýmis ferðamannasvæði í Mið-Evrópu sem hafa byggt sína afkomu t.d. á skíðamennsku og hvernig þau verða að bregðast við með nýrri vöru?, sagði Magnús.

Þó Ísland sé ekki aðili að Alþjóðaferðamálaráðinu tekur Magnús þátt í fundi ráðsins í næstu viku um þessi mál. ?Það er í framhaldi af þessum umræðum í júní og talið mikilvægt að fylgjast með þróuninni og hvernig talið er að vöruframboðið muni þróast miðað við þessar loftlagsbreytingar. Ýmsir hafa bent á að þessar breytingar hafi ekki síst áhrif hér á norðurslóðum og þá ekki eingöngu neikvæð. Einnig kunni að felast í þessum breytingum ákveðin tækifæri bæði hvað varðar núverandi vöruframboð og til nýrrar vöruþróunar í okkar heimshluta og þá hér á landi?, segir Magnús.