Fara í efni

Almenn ánægja með ITB

Einni stærstu ferðasýningu heims, Internationale Tourismus-Börse (ITB), lauk í Berlín nú í vikunni. Ferðamálaráð Íslands var þar með sýningarsvæði, líkt og verið hefur frá upphafi sýningarinnar fyrir rúmum 20 árum.

 Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, tókst sýningin vel og skilaði góðum árangri. Þátttakan hefur sjaldan verið betri en 26 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki kynntu þjónustu sína á sýningunni auk Ferðamálaráðs sem skipuleggur þátttökuna. "Við vorum líkt og áður í samstarfi við frændur okkar á hinum Norðurlöndunum og það var vel rúmt um okkur. Mér heyrist hljóðið vera gott í íslensku sýnendunum og þar var mikið að gera hjá þeim öllum. Sýningin stóð í 5 daga þar sem opið er í 3 daga fyrir almenning en 2 dagar eru ætlaðir fagaðilum í viðskiptaerindum," segir Ársæll.

Ráðherra ferðamála sótti sýninga heim
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra heimsótti sýninguna, og ávarpaði starfsmenn íslensku fyrirtækjanna. Ræddi ráðherrann m.a. um mikilvægi markaðssetningar á erlendum mörkuðum fyrir íslenska ferðaþjónustu. Ennfremur sagði hann við þetta tækifæri að ánægjulegt væri að sjá hversu myndarlega væri staðið að Íslandskynningunni að þessu sinni.

Tvö íslensk fyrirtæki verðlaunuð
Í tengslum við sýninguna voru skandinavísku ferðaverðlaunin (Scandinavian Travel Award) afhent í þriðja sinn og þar unnu tvö íslensk fyrirtæki til viðurkenninga. Nordis Verlag átti, í samvinnu við Ferðamálaráð Norðurlandanna, frumkvæðið að verðlaununum en tilgangurinn með þeim er að draga athygli fjölmiðla, almennings og viðskiptaaðila um allan heim að Norðurlöndunum og þeim tækifærum sem þar bjóðast í tengslum við ferðamannesku. Dómefndin er skipuð sérfræðingum og blaðamönnum stærstu fjölmiðla í ferðamálum. Við þetta tækifæri fékk Ísland mjög góða kynningu en keppt var í fjórum flokkum og hlaut Ísland verðlaun í tveimur. Fyrirtækið Destination Iceland hlaut þriðju verðlaun í flokknum "Besta söluvaran" og Katla Travel, sem staðsett er í Þýskalandi, fékk þriðju verðlaun í flokknum "Besti ferðaskipuleggandinn".

 Skoða myndir voru teknar á sýningunni