Alls ekki er mælt með akstri óbreyttra bíla um Fjallabak syðra
Ferðamálastofa sendi í dag út tilkynningu til bílaleiga þar sem bent er á að við núverandi aðstæður er alls ekki mælt með akstri óbreyttra bíla um Fjallabak syðra, sérstaklega um flæðurnar á Mælifellssandi.
Vatnsbúskapur á svæðinu hefur breyst verulega og vatnshæð í sumum ám að staðaldri verið meira en 10 sentímetrum hærri en undanfarin ár. Vatn hefur jafnframt brotið sér nýjar leiðir, sem gerir aðstæður óútreiknanlegar og hættulegar fyrir ökumenn sem ekki hafa reynslu af akstri um hálendi Íslands.
Mikilvægt er að árétta eftirfarandi fyrir viðskiptavini bílaleiga:
- Óbreyttir bílar henta ekki í ferðalag um þetta svæði.
- Minni jeppar eins og Dacia Duster og þess háttar bílar eru ekki ætlaðir öllum F-vegum, þar með talið leiðum á borð við Fjallabak syðra.
- Vegagerðin hefur skilgreint leiðina sem ófæra vegna ástandsins sem nú er.
- Djúpri lægð með mikilli úrkomu er spáð á sunnanverðu hálendinu annað kvöld, sem mun auka enn á vatnavexti.
Ferðamálastofa hvetur bílaleigur eindregið til að upplýsa viðskiptavini sína um að ekki sé ráðlegt að aka inn á þetta svæði á óbreyttum bílum en beina þeim þess í stað á öruggari leiðir.
Nánar á www.umferdin.is og www.vedur.is
Nánar upplýsingar veitir:
Dagbjartur Kr. Brynjarsson, sérfræðingur í öryggismálum - dagbjartur@ferdamalastofa.is