Fara í efni

Áhugi á skotveiðitengdri ferðaþjónustu meðal sölu- og markaðsaðila erlendis

Veiðikona
Veiðikona

Mikill áhugi er á skotveiðitengdri ferðaþjónustu á Íslandi meðal sölu- og markaðsaðila í Evrópu ef marka má niðurstöður könnunar sem gerð var til að kanna markaðs- og framtíðarmöguleika skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á norðurslóðum. Könnunin var gerð í tengslum við North Hunt verkefnið, sem er alþjóðlegt verkefni um þróun sjálfbærrar skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á jaðarsvæðum á norðurslóðum.

Jafnframt kom fram í könnuninni að þrátt fyrir þennan áhuga skorti söluaðila upplýsingar um hvað væri í boði í skotveiðum á Íslandi. ?Ísland var eitt fimm landa sem spurt var um í könnuninni og spurðum við um fýsileika þess að selja skotveiðitengda ferðaþjónustu í þessum löndum?, segir Hjördís Sigursteinsdóttir verkefnisstjóri North Hunt á Íslandi. Hin löndin eru Finnland, Svíþjóð, Skotland og Kanada. Að sögn Hjördísar kom Ísland mjög vel út úr könnuninni: ?Hér á landi hefur verið mikil gróska í þróun skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á undanförnum misserum og það sjáum við meðal annars endurspeglast í niðurstöðum könnunarinnar. Könnunin gaf góðar vísbendingar um hvaða tækifæri væru til staðar en við þurfum klárlega að upplýsa söluaðilana betur um hvað er í boði hér á landi?, segir Hjördís.


Hjördís bendir á að Ísland er ekki mjög stórt skotveiðiland samanborið við erlend lönd. Fjöldi íslenskra veiðikorthafa hefur verið í um það bil 10-12.000 en fjöldi erlendra veiðimanna á Íslandi hefur einungis verið í kringum 100 á síðustu árum. Þrátt fyrir áhuga markaðs- og söluaðila á skotveiðitengdri ferðaþjónustu á Íslandi er þó margt sem þarf að huga að. ?Við höfum heyrt mjög jákvæðar raddir hjá fyrirtækjum í  skotveiðitengdri ferðaþjónustu hér á landi og að þau séu reiðubúin að taka á móti erlendum skotveiðimönnum. En við þurfum að vera mjög meðvituð um að skotveiðar í íslenskri náttúru byggja á mjög takmarkaðri auðlind sem þarf að fara vel með, það er því ekki sama hvernig að farið er að þessu?, segir Hjördís.


Svíþjóð, Finnland, Skotland og Kanda komu einnig vel út úr könnuninni en Hjördís segir að Íslendingar geti lært margt af þessum löndum varðandi veiðihefðir og þróun í skotveiðitengdri ferðaþjónustu. ?Öll þessi lönd þykja vera álitlegir markaðir og við lítum til þessara landa eftir fyrirmynd í ýmsu hvað varðar þróun sjálfbærrar skotveiðitengdrar ferðaþjónustu og sjálfbærni er einmitt lykilatriðið og það sem North Hunt verkefnið snýst um?, segir Hjördís að lokum.


Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar og North Hunt verkefnið er að finna á  www.north-hunt.org/is