Fara í efni

Áfangastaðaáætlun á Norðurlandi

Áfangastaðaáætlun á Norðurlandi

Vinna við DMP áfangastaðaáætlun fyrir Norðurland er í fullum gangi og búið er að halda svæðisfundi innan fyrirfram skilgreindra svæða. 

Svæðisfundir haldnir

Markmið svæðisfunda er meðal annars að ákveða hver forgangsverkefni hagsmunaðila eru á svæðinu, auk þess að farið er yfir markaðsáherslur á svæðinu. Vegna þessara forgangsverkefna voru ferðamálafulltrúar, formenn ferðamálasamtaka og sveitarstjórnendur beðnir um að senda lista yfir fimm mikilvægustu verkefnin á þeirra svæði, sem munu stuðla að því að byggja upp ábyrga ferðaþjónustu á svæðinu. Slík forgangsröðun er byggð á stefnu og áherslu Markaðsstofu Norðurlands. Á svæðisfundum voru þessi verkefni kynnt og þátttakendur á fundunum tóku ákvörðun um hvaða verkefni væru mikilvægust fyrir viðkomandi svæði. Afurðin er 15 atriða forgangslisti fyrir áfangastaðinn Norðurland. Á fundunum var auk þess kafað dýpra í markaðsáherslur hvers svæðis fyrir sig. Með þeirri vinnu verður hægt að fá betri mynd af stöðu mála og skýrari fókus á markaðsáherslur hvers svæðis.

Fundirnir voru opnir öllum og voru áhugasamir um ábyrga ferðaþjónustu hvattir til þess að mæta. Fundirnir voru auglýstir í svæðisblöðum, með markpóstum, í Facebook-hópum og með markpósti Markaðsstofu Norðurlands. Á næstu vikum verður unnið úr þeim upplýsingum sem komu fram á fundunum.

Samvinna við Selasetur Íslands og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga

Áfangastaðaáætlun DMP snýst um að skipuleggja og samhæfa þróun og stýringu á öllum þeim þáttum sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Björn H Reynisson, bjorn@nordurland.is. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Selasetur Íslands og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, en frá þeim koma tveir verkefnastjórar sem starfa báðir í 50% hlutfalli við verkefnið.

Nánar má fræðast um verkefnið og gang á mála á vef Markaðsstofu Norðurlands:
https://www.northiceland.is/is/dmp