Fara í efni

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands

PeturogSturla
PeturogSturla

Næstkomandi föstudag og laugardag, 21. og 22. nóvember, halda Ferðamálasamtök Íslands (FSÍ) aðalfund sinn. Fundurinn er að þessu sinni haldinn á veitingastaðnum Ránni í Reykjanesbæ.

Samstarf um námskeiðahald
Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða ýmis mál tekin til umræðu. "Meðal umræðuefna verður samstarfsverkefni FSÍ og nokkurra fyrirtækja og stofnana sem vinna á í vetur með ferðaþjónustuaðilum um allt land. Verkefnið felst í að halda námskeið á 15 stöðum og munu þau fjalla um áætlanagerð, bókhald, fjármögnun og bankaviðskipti. Þetta er mjög brýnt verkefni og mun koma sér vel fyrir meginþorra allra fyrirtækja í ferðaþjónustu vítt og breytt um landið. Samstarfsverkefnið er tilkomið vegna umræðunnar innan ferðaþjónustunnar um skort á nægu þolinmóðu áhættufjármagni og lægri vöxtum til að gera fyrirtækjum kleift að þróast og dafna á sínum fyrstu árum," segir Pétur Rafnsson, formaður FSÍ.

Samstarf á svæðum
Fyrirlesarar á aðalfundinum verða fjórir og munu þeir ræða staðbundna ferðaþjónustu, stöðu hennar og möguleika til framtíðar og ekki síst nauðsynlegt samstarf á svæðum til að fyrirtækjum takist að komast yfir erfiðasta hjallann og auka arðsemi sína nægilega til að eiga fyrir sér þá framtíð sem nýtast mun þeim sjálfum og ferðaþjónustunni í heild. "Ísland er örmarkaður í ferðaþjónustu heimsins, hvað þá heldur einstakir landshlutar og svæði. Þess vegna skiptir sköpum hvernig samstaðan er í hverjum landshluta og hversu mikla grein menn gera sér fyrir mikilvægi ferðaþjónustu síns svæðis," segir Pétur. Þá mun ferðamálastjóri á fundinum taka saman stöðu ferðaþjónustunnar ári 2003 og horfa fram á veginn.

Dagskrá fundarins.

Föstudagur 21. nóvember.
Fundarstjóri: Anna G. Sverrisdóttir, Bláa Lóninu

Kl.: 12:00 Skráning í gistingu á Hótel Keflavík
Kl.: 13:00 Aðalfundur FSÍ haldinn á veitingastaðnum Ránni
                Afhending fundargagna
Kl.: 13:30 Setning - Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands
Kl.: 13:45 Ávarp samgönguráðherra Sturlu Böðvarssonar
Kl.: 14:00 Undirritun samstarfssamnings um námskeiðahald FSÍ og fl..
Kl.: 14:30 Ferðaþjónusta á Reykjanesi
                Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Kl.: 14:45 Fyrirspurnir
Kl.: 15:15 Kaffihlé
Kl.: 15:45 Aðalfundarstörf skv. lögum FSÍ
Kl.: 18:30 Skoðunarferð í Reykjanesbæ
Kl.: 20:00 Léttar veitingar í boði bæjarstjórnar
Kl.: 20:30 Kvöldverður og kvöldvaka

Laugardagur 22. nóvember.
Fundarstjóri: Steinþór Jónsson, Hótel Keflavík

Kl.: 09:30 Ferðaþjónusta í dreifbýli - Einar K. Guðfinnsson,
                form. Ferðamálaráðs Íslands
Kl.: 10:00 Ástand og horfur í lok sumars - Magnús Oddsson,
                ferðamálastjóri.
Kl.: 10:30 Samstarf og aukin arðsemi - Jón Karl Ólafsson,
                form. SAF
Kl.: 11:00 Umræður og fundarslit.

Skráning á fundinn og bókun herbergja er á Hótel Keflavík í síma 420-7000