Fara í efni

Að loknum verkfallsaðgerðum

Nú þegar ljóst er að miðlunartillaga setts ríkissáttasemjara í deilu Eflingar stéttarfélags og SA var samþykkt er vert að fara yfir aðkomu Ferðamálastofu og upplýsingagjöf til stjórnvalda og ferðafólks.

Fylgst með bókunarstöðu

Strax í upphafi verkfallsaðgerða fylgdist starfsfólk Ferðamálastofu vel með bókunarstöðu á hótelum á höfuðborgarsvæðinu og svæðunum í kring og var þetta gert nokkru sinnum. Tilgangurinn var að meta þörfina á gistiplássi fyrir þá gesti sem höfðu misst sína gistingu, þetta var unnið á tvenna vegu, annars vegar með því að senda út könnun sem gistiaðila fylltu út og með símhringingum.

Upplýsingasíða á ensku

Eftir að fleiri hótel þurftu að loka sem og að olíu og bensíndreifing var verulega skert var ákveðið að setja upp upplýsingasíðu á ensku þar sem ferðafólk gat aflað sér upplýsinga um ástandið á hverjum tíma, visiticeland,is vefur Íslandsstofu var einnig nýttur til að koma þessu til skila.

Á annað þúsund símtöl í neyðarnúmer

Einnig var sett upp neyðarnúmer sem gestir sem misst höfðu sína gistingu gætu leitað til fyndu þeir ekki gistingu sjálfir. Það er skemmst frá því að segja að þessi tilhögun var fljót að sanna sig sem mikið þarfaþing. Símanúmerið var opið 24 tíma á sólarhring og af þeim átta sólarhringum sem það var starfrækt voru allt að sex starfsmenn við að svara og liðsinna okkar gestum. Símtölin voru á annað þúsund og er hægt að áætla að á bak við þau séu ekki færri en fjögur þúsund einstaklingar.

Margir lögðu hönd á plóg

Ferðamálastofa vill þakka Halldóri Jóni Jóhannessyni og hans fólki hjá ferðaskrifstofunni Iceland Luxury Expeditions ehf. fyrir vel unnið verk við að liðsinna gestum við að finna lausn á sínum málum í gegnum neyðarnúmerið en leitað var tilboða hjá ferðaskrifstofum í verkið. Einnig viljum við þakka forsvarsfólki hinna ýmsu ferðaþjónustufyrirtækja og hagsmunasamtaka fyrir hreinskiptna upplýsingagjöf um þeirra viðkvæmu viðskiptaupplýsingar sem nýttust okkur vel við að meta stöðuna og upplýsa okkar fagráðuneyti og aðra hlutaðeigandi um stöðuna hverju sinni.

Ferðaþjónustuaðilar yfirfari skráningar sínar

Mikil vægi gagnagrunns Ferðamálastofu sannaði sig rækilega í þessu verkefni og er vert að brýna fyrir ferðaþjónustuaðilum að fara vel yfir sínar skráningar þar inni til að þær nýtist ekki bara í markaðslegum tilgangi inn á www.visiticeland, www.ferdalag.is og landhlutasíðum áfangastaðastofa heldur ekki síður varðandi öryggi og upplýsingagjöf til ferðaþjóna og gesta.