Fara í efni

69 milljónum úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

úthlutun framkvæmdasjóðs
úthlutun framkvæmdasjóðs

Iðnaðarráðherra hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða vegna fyrstu úthlutunar úr sjóðnum. Úthlutað var styrkjum til 30 verkefna að upphæð 69 milljónir króna. Alls bárust 124 umsóknir og nam heildarupphæð styrkumsókna tæpum 455 milljónum króna.

Verkefnin sem hljóta styrki eru fjölbreytt og kennir þar ýmissa grasa. Öll eiga þau þó það sameiginlegt að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt.  Þriðjungur styrkþega fékk þá upphæð sem þeir sóttu um, en aðrir fengu styrk til ákveðinna verkþátta og eru styrkupphæðirnar á bilinu 250 þúsund til 5 milljóna króna.

Hæstu styrkir
Hæstu styrkina (5 milljónir kr.) fá Umhverfisstofnun vegna hönnunarsamkeppni um Gullfosssvæðið, Rangárþing ytra til að vinna samræmt ramma? eða svæðisskipulag fyrir Fjallabakssvæðið m.t.t. ferðamennsku, öryggismála, álags á náttúru og samgangna, Rangárþing eystra vegna framkvæmda við nýjan útsýnispall við Skógafoss, Mýrdalshreppur vegna frágangs á þjónustuhúsi á Háey, undirbúning að nýju salernishúsi á Lágey og til uppbyggingar og merkingar stíga á svæðinu og loks Hveravallafélagið til hönnunar veitna og umhverfishönnun í tengslum við þær á Hveravöllum. Þá fær Fornleifavernd ríkisins  styrk að upphæð 4,9 milljónir fyrir hugmyndasamkeppni sem lýtur að heildarmynd minjasvæðisins í Þjórsárdal og gönguleiðum á milli minjastaða og Ósafell hf. 4,5 milljón króna styrk til framkvæmda við nýtt þjónustuhús við Hvítserk.

Í meðfylgjandi PDF-skjali má sjá yfirlit um alla styrkþega og verkefni þeirra.

Hlutverk sjóðsins
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er vistaður hjá Ferðamálastofu og starfsmaður hans er Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri. Samkvæmt lögum nr. 75/2011 um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt og stuðla þannig að verndun náttúrunnar og auknu öryggi ferðamanna. Jafnframt er það eitt af markmiðunum að fjölga viðkomustöðum ferðafólks með það að augnamiði að draga úr álagi á viðkvæma og fjölsótta ferðamannastaði. Eins og fram kemur í lögum um sjóðinn eru tekjur hans 3/5 hlutar af gistináttaskatti, sem byrjað var að innheima nú um áramótin

Stjórn sjóðsins skipa
• Albína Thordarson arkitekt, formaður
• Sævar Skaptason, frkvst. Ferðaþj. Bænda, fulltrúi SAF
• Anna G. Sverrisd. Frkvst. Fontana, fulltrúi SAF
• Guðjón Bragason, Samb. Íslenskra Sveitarfélaga

Næsta úthlutun
Áætlað er að næst verið auglýst eftir styrkjum úr sjóðnum í haust.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisstjóri Ferðamálastofu
Sími: 535-5500 eða sveinn@ferdamalastofa.is

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson, arctic-images.com