650-700 milljarða gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu á Íslandi á næstu 10 árum?

650-700 milljarða gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu á Íslandi á næstu 10 árum?
hestareidleidir

Vert er að benda á nýjan pistil hér á vefnum eftir Magnús Oddsson ferðamálastjóra. Hann bendir á að gangi spár um aukin umsvif eftir megi gera ráð fyrir að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hérlendis verði 650-700 milljarðar á næstu 10 árum.

650-700 milljarða gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu á Íslandi á næstu 10 árum?

Magnús Oddsson ferðamálastjóri skrifar:

Í ljósi þeirra upplýsinga frá Seðlabanka Íslands, sem birtar voru nýlega um beinar gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu á árinu 2006 má eðlilega velta fyrir sér mikilvægi þessarar greinar fyrir gjaldeyrisöflunar á næstunni.

Gjaldeyristekjurnar voru um 47 milljarðar á síðasta ári og var bara aukningin á milli ára um 7 milljarðar eða nær 18%. Þetta er ótrúleg aukning en samt í ákveðnu samræmi við aukin umsvif greinarinnar hvað varðar erlenda gesti.

Þegar litið er til baka yfir þróunina og síðan til þeirra áætlana sem eru um aukningu í umfangi ferðaþjónustu, í fyrsta lagi á heimsvísu, í okkar heimshluta og áætlana um uppbyggingu hér landi og fleiri breyta  hlýtur það að teljast nokkuð eðlilegt að gera ráð fyrir að aukning gjaldeyristekna sem ferðaþjónustna skilar í þjóðarbúið muni að meðaltali aukist um 6-7% á ári til ársins 2015.

Það þýðir að við ættum að öllu óbreyttu að geta gert ráð fyrir að íslensk ferðaþjónusta skili gjaldeyristekjum í þjóðarbúið á bilinu 650-700 milljarða króna á næstu 10 árum. Tekjuaukinn miðað við óbreytt ástand væri því 180-230 milljarðar á næstu 10 árum. Hér er eingöngu verið að tala um tekjur sem skila sér vegna erlenda hluta ferðamennskunnar í landinu.

Þegar litið er til skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem rætt er um efnahagsáhrif útgjalda erlendra ferðamanna , bæði bein áhrif og óbein og afleidd áhrif að þá mætti gera ráð fyrir að þessar gjaldeyristekjur skapi heildarumsvif í hagkerfinu sem nema um 2600-2800 milljörðum á næstu 10 árum.

Allar þessar tölur og ýmsar fleiri sýna mikilvægi þessarar atvinnugreinar í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og allri atvinnuuppbyggingu á næstu árum og áratugum.

 


Athugasemdir