Fara í efni

500 aðilar frá 17 löndum á ferðakaupstefnunni Mid-Atlantic

midatlantic
midatlantic

Metþátttaka er á ferðakaupstefnunni Mid-Atlantic sem hófst á Nordica hótelinu í Reykjavík í gær og stendur fram á sunnudag. Þátttakendur eru alls um 500 talsins frá 17 löndum.

Mid-Atlantic kaupstefnan er haldin á vegum Icelandair til þess að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu í Bandaríkjunum og Evrópu. Kaupstefnan er árlegur lykilviðburður í ferðaþjónustunni og mikilvægur liður í að viðhalda og auka ferðamannastraum til Íslands, segir í frétt frá Icelandair.

Sumir langt að komnir
Á kaupstefnunni eru fulltrúar frá löndum sem hafa mikil ferðaþjónustutengsl við Ísland en einnig öðrum fjarlægari og nú eru hér t.d. fulltrúar frá Ísrael, Hong Kong, Tævan, Kína og Japan. Þátttakendur eru fulltrúar ferðaskrifstofa, hótela, bílaleiga, skemmtigarða og margvíslegra annarra ferðaþjónustufyrirtækja og að auki taka þátt ferðamálaráð Norðurlandanna, ferðamálaráð þeirra svæða og borga sem Icelandair flýgur til í Norður-Ameríku og jafnframt koma sendiráð þessara landa á Íslandi að kaupstefnunni. Að þessu sinni verða fulltrúar frá San Francisco áberandi en beint áætlunarflug milli Íslands og borgarinnar hefst í vor.

Ísland miðpunkturinn
"Það koma stöðugt fleiri þátttakendur á kaupstefnuna ár frá ári og það segir okkur að þátttakendur telja að hún beri árangur. Nú eru hér til dæmis mjög margir fulltrúar frá Bandaríkjunum sem eru hér annars vegar að kaupa ferðaþjónustu frá Norður-Evrópu sem þeir síðan selja neytendum vestra og hinsvegar að kynna sínar heimaslóðir fyrir evrópskum ferðaþjónustuaðilum. Það er einnig gaman að sjá í fyrsta sinn fulltrúa frá fjórum Asíulöndum. Ísland er svo miðpunkturinn í öllu þessu starfi, en á kaupstefnunni eru kynningarfundir, sölusýningar, stuttar ferðir og þemakvöld," segir Steinn Logi Björnsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.

Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu Mid-Atlantic http://midatlantic.icelandair.com