Fara í efni

20 ár frá opnun skrifstofu Ferðamálaráðs í Evrópu

hahysifraFrankfurth
hahysifraFrankfurth

Nú um helgina eru liðin 20 ár frá því að skrifstofa Ferðamálaráðs var opnuð í Evrópu. Skrifstofan er staðsett í Frankfurt í Þýskalandi en markaðssvæði hennar tekur til allrar Mið-Evrópu, svo sem Þýskalands, Frakklands, Austurríkis, Sviss, Ítalíu, Hollands Belgíu og fleiri landa.

"Árið 1984 var mikil umræða innan stjórnar Ferðamálaráðs um nauðsyn þess að efla allt kynningar- og markaðsstarf okkar á þessum mikilvæga markaði", segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri, sem þá sat í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs. "Niðurstaða þeirra viðræðna var sú að hefja starfsemi með opnun skrifstofu í Frankfurt í samstarfi við aðra hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Þetta var í reynd fyrsta "krónu á móti krónu" samstarfið þar sem Ferðamálaráð greiddi helming kostnaðar og Flugleiðir, Arnarflug, Samband veitinga- og gistihúsa, Félag íslenskra ferðaskrifstofa og Ferðaskrifstofa ríkisins greiddu hinn helminginn á móti. Við fórum síðan út og opnuðum skrifstofuna með viðhöfn 27. febrúar 1985. Smám saman fækkaði síðan þessum samstarfsaðilum og nú um nokkuð langt skeið hefur Ferðamálaráð staðið eitt að þessum rekstri", segir Magnús.

Þrír gegnst starfi forstöðumanns
Fyrsti forstöðumaður skrifstofunnar var Ómar Benediktsson, þá tók við Dieter Wendler og loks núverandi forstöðumaður Haukur Birgisson. Á skrifstofunni starfa nú fjórir starfsmenn þar af einn frönskumælandi sem sinnir fyrst og fremst frönskumælandi hluta Evrópu. Starfsmenn svara miklum fjölda fyrirspurna, taka þátt í tugum ferðasýninga í Evrópu árlega, dreifa hundruðum þúsunda bæklinga og annars kynningarefnis, aðstoða söluaðila Íslandsferða og leita nýrra. Þá eru samskipti við fjölmiðlafólk og aðstoð við það mikilvægur þáttur í starfsemi skrifstofunnar.

Fjórföldun á umfangi ferðaþjónustu frá markaðssvæðinu
Þegar litið er til breytinga á þessum 20 árum þá má t.d. nefna að nær fjórföldun hefur orðið í umfangi ferðaþjónustu hér á landi frá þessu markaðssvæði skrifstofunnar á þessum 20 árum og miklar breytingar á því samhliða, hvað varðar t.d. minnkun í árstíðarsveiflu og fleira.

Ferðamálaráð mun halda fund á skrifstofunni í Frankfurt á fimmtudag og föstudag og kynna sér ýmislegt tengt starfseminni. Má þar nefna heimsókn til söluaðila Íslandsferða, kynningu á markaðssetningu ráðstefnumiðstöðvar Frankfurt og fleira.



Frá Frankfurt í Þýskalandi.