Fara í efni

135 milljónir í rannsóknir í ferðaþjónustu

Markhópagreining, vöktun á ástandi ferðamannastaða og samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu eru á meðal þeirra þátta sem rannsakaðir verða á næstu mánuðum. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur staðfest tillögu Stjórnstöðvar ferðamála um tíu styrki til rannsókna í ferðaþjónustu en í fjárlögum þessa árs var sérstök aukafjárveiting í þennan málaflokk.

Stjórnstöð ferðamála setti í byrjun árs á fót stýrihóp um áreiðanleg gögn og eitt af verkefnum hópsins var að koma með tillögur um ráðstöfun á ofangreindum fjármunum. Vinnuhópar greindu einstök rannsóknarverkefni og stýrihópur valdi síðan verkefni með áherslu á að sameiginlega skili þau niðurstöðum sem veita heildstæða yfirsýn yfir stöðu mála tengt ferðaþjónustunni.

Gert er ráð fyrir að niðurstöður muni liggja fyrir á þessu ári eða í upphafi næsta árs. Gert er ráð fyrir að sum þeirra verði hluti af endurteknum mælingum og rannsóknum til framtíðar en önnur verði ekki endurtekin, allt eftir eðli þeirra.