Fara í efni

101 Hótel, Hótel Búðir og Sjávarkjallarinn á úrvalslista virtasta ferðatímarits Bandaríkjanna

TravelerMagasin
TravelerMagasin

Virtasta ferðatímaritið í Bandaríkjunum "Condé Nast Traveler" birtir árlega það sem það nefnir "Hot list". Þar eru kynnt 100 bestu nýju hótel í heimi að mati tímaritsins og einnig 66 bestu nýju veitingastaðirnir og 30 bestu nýju barirnir. Listinn er birtur í maíhefti blaðsins, sem var að koma út, og á Ísland þar fjóra fulltrúa.

Það eru 101 Hótel í Reykjavík og Hótel Búðir á Snæfellsnesi sem talin eru í hópi 100 bestu nýju hótela heimsins, Sjávarkjallarinn er á listanum sem einn af 66 bestu nýju veitingastöðum veraldar og barinn á 101 Hótel sem einn af 30 bestu börunum. Hver og einn staður fær talsverða umfjöllun í blaðinu þar sem helstu kostir hans eru tíundaðir og rökstutt hvað gerir hann þess verðan að komast á listann. Má með sanni segja að þetta sé glæsilegur árangur, samhliða því að vera mikil og góð landkynning.

Ísland er "HOT"
Fulltrúar Condé Nast Traveler fóru til Íslands í nóvember og desember síðastliðnum og kynntu sér hvað Ísland hefur að bjóða sem ferðamannaland. Ferðin var farin að tilstuðlan skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í New York og segir Einar Gústavsson forstöðumaður ljóst að Íslandsdvölin hljóti að hafa fallið blaðamönnum Condé Nast Traveler vel í geð. "Við höfum gjarnan haldið því fram að Ísland sé "HOT" hér í Bandaríkjunum og því vel viðeigandi að við komumst á þennan "hot list" tímaritsins," segir Einar. Þess má geta að veitingastaður Sigga Hall komst á listann fyrir fjórum árum.

Eftirsótt tilnefning
Sem fyrr segir er Condé Nast Traveler talið virtasta ferðatímarit í Bandaríkjunum og frægt um allan heim. Það kemur út mánaðarlega, er um 320 síður og áætlað að um fimm miljónir manna lesi það í hverjum mánuði. "Það þykir mikill heiður að komast á listann og er ríkulega notað í markaðssetningu hjá þeim sem til þess vinna. Því er engin spurning að í þessu felast góð tækifæri fyrir viðkomandi staði. Þeirra er heiðurinn því það er öflugt starf hjá þeim sem skilar þessum árangri og samhliða er Ísland að fá mikla kynningu sem ferðamannaland. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir hversu frábær árangur þetta er því blaðamenn Condé Nast Traveler heimsækja tugi landa og þúsundir hótela árlega. Að pínulitla Ísland skuli fá svo mikla athygli er í raun með ólíkindum," segir Einar.