Fara í efni

1000 erlendir gestir á dag

KaffiParis
KaffiParis

ú þegar liggja fyrir tölur um komu erlendra ferðamanna fyrstu níu mánuði ársins eru þeir orðnir um 37.000 fleiri en á sama tíma í fyrra. Miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi um bókanir síðustu mánuði ársins segir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri því mega gera ráð fyrir að erlendir gestir til Íslands á þessu ári verði nálægt 365.000 eða um 45.000 fleiri en í fyrra.

"Þessir 365.000 erlendir gestir samsvara því að hingað til lands komi að meðaltali hvern einasta dag ársins 1000 gestir, sem dvelja í landinu. Þessu til viðbótar koma gestir með skemmtiferðarskipum og svo þeir gestir sem hafa stutta viðdvöl í Leifsstöð. Ég veit ekki hvort fólk hefur almennt gert sér ljóst hve umsvifin í ferðaþjónustu hafa aukist hratt og að nú stefni í að þessu meðaltasmarkmiði um 1000 erlenda gesti á dag verði náð þegar á þessu ári," segir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri.

Höfum náð betri árangri en aðrir í jöfnun árstíðasveiflunnar
Dreifing gesta er að sjálfsögðu ekki jöfn alla daga ársins en í þeim efnum hefur samt orðið mikil breyting. Að sögn Magnúsar komu í ár um 1.800 erlendir gestir að meðaltali hvern dag sumarsins og gera má ráð fyrir um 730 að meðaltali utan sumars. Fyrir 10 árum, eða árið 1994, komu að meðaltali 1000 gestir daglega yfir sumarið en um 230 að meðaltali utan sumarsins. Þannig nú koma nú rúmlega þrefalt fleiri utan háannar en fyrir 10 árum en aukning í komu gesta að sumri er "aðeins" 80% á þessu 10 ára tímabili. "Þessar tölur staðfesta að sú áhersla sem hefur verið lögð á markaðssetningu og vöruþróun utan háannar hefur skilað verulegum árangri þegar litið er til komutíma gestanna. Við lauslega skoðun á tölfræði er ekki að sjá að nokkur önnur þjóð hafi náð viðlíka árangri í jöfnun árstíðarsveiflunnar á þessum 10 árum," segir Magnús.

Skapað enn frekari forsendur til arðsemi og atvinnusköpunar
Aukningin utan háannar hefur að sjálfsögðu í för með sér verulega aukningu í tekjum af ferðamönnum. "Nú í vetur má gera ráð fyrir að hér verði um 200.000 erlendir ferðamenn, sem skili um 15 milljörðum króna í þjóðarbúið vegna kaupa á vörum og þjónustu Fyrir 10 árum voru hér um 60.000 erlendir gestir utan háannar sem skildu eftir um 4 milljarða vegna neyslu í landinu. Þessi árangur hlýtur að hafa gjörbreytt forsendum til heilsársreksturs fjölda fyrirtækja í greininni og þannig skapað enn frekari forsendur til arðsemi og atvinnusköpunar" segir Magnús.

Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.