Skattskylda af erlendri ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi - skýrsla starfshóps

Í gagnabankann er leitast við að skrá skýrslur og annað útgefið efni tengt ferðaþjónustu, sem út kemur hérlendis og er öllum opið án endurgjalds. Senda ábendingu um efni

Nánari upplýsingar
Titill Skattskylda af erlendri ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi - skýrsla starfshóps
Lýsing

Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði þann 13. júní 2017 starfshóp til að fara yfir skattskil af erlendri ferðaþjónustustarfsemi, greina stöðu mála og koma með tillögur til úrbóta. Starfshópurinn var settur á laggirnar vegna ábendinga sem fram hafa komið um ójafna samkeppnisstöðu íslenskra ferðaþjónustuaðila gagnvart erlendum keppinautum, einkum á sviði hópferða. Ábendingarnar snúa fyrst og fremst að skattskilum erlendu aðilanna, einkum skilum á virðisaukaskatti en einnig mögulegri tekjuskattsskyldu þeirra hérlendis vegna þessarar starfsemi, staðgreiðsluskyldu vegna launamanna á þeirra vegum, sem og greiðslu aðflutningsgjalda. Þá hefur verið bent á að reglubundnar ferðir erlendra skemmtiferðaskipa milli hafna innanlands hafi skapað ójafna samkeppnisstöðu gagnvart veitingahúsum og gististöðum hér á landi.

Í starfshópnum áttu sæti Hlynur Ingason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, formaður, Elín Alma Arthursdóttir frá ríkisskattstjóra, Guðný Bjarnarsdóttir frá skattrannsóknarstjóra og Steinþór Þorsteinsson frá tollstjóra. Með starfshópnum störfuðu einnig Ingibjörg Helga Helgadóttir og Jóhanna Norðdahl frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Selma Grétarsdóttir frá tollstjóra.

Starfshópurinn skilaði skýrslu ásamt skilagrein til fjármála- og efnahagsráðherra.

Helstu niðurstöður starfshópsins eru eftirfarandi:

  • 19 hópferðabifreiðar á erlendum skráningarnúmerum sem skráðar eru í bráðabirgðaafgreiðslu vegna tímabundins innflutnings, eru starfræktar hér á landi sem stendur. Þó geta fleiri hópferðabifreiðar verið á landinu í lögmætum tilgangi, án þess að skattar eða gjöld séu innheimt hér á landi, en það á við þegar þær koma til landsins í tiltekinn tíma með einn hóp ferðamanna sem fer af landi brott með sömu hópferðabifreiðinni.
  • Lagt er til að lögfest verði skylda erlendra ferðaþjónustuaðila sem hafa með höndum skattskylda starfsemi hér á landi til að standa skil á skattgreiðslum áður en ökutæki er flutt úr landi, að viðlögðum refsingum. Samhliða verði málsmeðferðarreglur skattalaga skoðaðar í slíkum tilvikum með einföldun að leiðarljósi.
  • Samstarfsvettvangur verði settur á laggirnar með tengiliðum frá Ferðamálastofu, tollstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Vinnumálastofnun, Samgöngustofu og lögreglu til miðlunar upplýsinga og eftir atvikum samstarfs um eftirlit og úrbætur vegna ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi. Samstarfsvettvangurinn hafi samráð við hlutaðeigandi ráðuneyti sem og Stjórnstöð ferðamála eftir þörfum hverju sinni.
  • Sett verði stöðluð gjaldskrá um greiðslu aðflutningsgjalda (bráðabirgðaafgreiðsla) vegna tímabundins innflutnings erlendra hópferðabifreiða til landsins, eða annarra ökutækja sem nota á til atvinnurekstrar, í stað útreiknings út frá áætlaðri leigu. Gjaldið greiðist við komu til landsins en ekki við brottför.
  • Tekið verði upp ákvæði í lög um virðisaukaskatt sem heimili erlendum ferðaþjónustuaðilum sem hafa með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi hér á landi að skrá sig í gegnum einfaldað rafrænt skráningarkerfi vegna skila á virðisaukaskatti hingað til lands. Á sama hátt yrði metið hvort gera þarf viðeigandi breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
  • Frekari upplýsingar verði veittar til erlendra ferðaþjónustuaðila sem starfrækja erlendar hópferðabifreiðar hér á landi og til erlendra ferðaskrifstofa sem selja ferðir hingað til lands. Ítarlegri upplýsingagjöf verði á gáttinni www.posting.is fyrir þessa aðila. Þá verði hlekkir settir á vefsíðuna sem vísi á heimasíður mismunandi stofnana og öfugt.
  • Ákvæði tollalaga er varðar tollfrelsi skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum verði viðhaldið, en þó þannig að lagaumhverfið verði skýrt og þrengt. Skýrt verði í tollalögum og/eða í reglugerð hvað felist í hugtökunum „skemmtiferðaskip“ og „innanlandssiglingar“.
  • Innheimt verði sérstakt gjald fyrir hvern farþega sem er um borð í skemmtiferðaskipi á meðan á innanlandssiglingum þess stendur sem svarar sem næst til þeirra skatta, tolla og annarra gjalda sem útgerð skips þyrfti annars að inna af hendi ef starfsemi hennar væri skráð hérlendis. Ákvæði um slíka gjaldtöku þyrfti töluverðan aðdraganda.
Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Höfundar
Flokkun
Flokkur Lög og reglugerðir
Útgáfuár 2017
Útgefandi Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Leitarorð skattar, skattskil, skattalöggjöf, vsk, virðisaukaskattur, skattskilda, tollar, tollur, löggjöf, lög, lagasetnng, álögur, samkeppni, starfsumhverfi, rútur, langferðabifleiðar, hópferðir, hópferðabifreiðar, hópferðabílar, farþegaflutningar, fjármála- og efnahagsráðuneytið